sjavarutvegur-765x510Ráðherra sjávarútvegsmála hefur lagt fram frumvarp um veiðiheimildir á makríl til að skapa það sem hann kallar fyrirsjáanleika.

Orðið fyrirsjáanleiki er í þessu sambandi merkilegt og sennilega búið til eða magnað upp af áhugamönnum um að eignarhald útgerða á veiðiheimildum við Íslandsstrendur vari til eilífðar.

Sömu aðilar fundu upp eða mögnuðu notkun orðsins leigjendavandi sem í stuttu máli gengur út á að þeir sem ekki hafa ævarandi veiðiheimildir muni ganga verr um auðlindina og miðin en núverandi kvótaeigendur sem margir fengu kvóta sinn gefins. Fari veiðiheimildir á uppboðsmarkað til segjum fimm ára þá mundu væntanlega sömu einstaklingar veiða og það gera nú. Leigjendavandakenningin gerir hins vegar ráð fyrir því að ef þessir einstaklingar hætta að vera starfsmenn lénsherra (kvótagreifa) og yrðu starfsmenn handhafa veiðiheimildar eftir kaup á markaði (sem líklegast er yrðu að mestu sömu aðilar) þá mundi umgengni versna og brottkast aukast.

Þessi nýstárlega notkun tungumálsins á sér tilgang.

Fyrirsjáanleiki ráðherrans, að mestu með hag núverandi kvótaeiganda í huga, er að festa í lög veiðileyfi sem ná fram yfir síðasta dag næstu ríkisstjórnar, sem tekur ekki við völdum fyrr en eftir tvö ár. Það sem flestum finnst eðlilegast núna þegar mikil óvissa ríkir um makrílinn er að bjóða veiðiheimildir upp á markaði fyrir hvert ár eða fáein ár í senn. Þessi leið, að bjóða upp veiðileyfi, er líklegast sú lausn sem mest sátt yrði um meðal eiganda auðlindarinnar, sem er þjóðin.

Þegar ráðherrann talaði um fyrirsjáanleika var hann ekki að tala um fiskgengd, því þrátt fyrir valinn mann í hverju rúmi í ráðuneytinu hefur það hvorki vald á fiskgengd né heldur hefði það getað komið í veg fyrir gæftaleysi á loðnuvertíðinni í vetur.

Í orðræðu undanfarinna ára er eitt öflugasta stefið á mikilvægi þess að byggja upp viðskiptasambönd og framleiða þá vöru sem borgar mest á markaði erlendis. Réttilega. Ferskur fiskur með flugi er dæmi um slíka tengingu við neytendur. Í makrílumræðunni er þetta hins vegar yfirfært á uppsjávarfisk-afurðir sem hafa allt annað sölufyrirkomulag, þar sem varan er oftast seld í heilförmum til frekari vinnslu í kaupendalandi. En til að tryggja óbreytt ástand í kvótamálum hljómar þetta vel!

Duglegir menn hafa fjárfest og minnkað kostnað við veitt tonn

Þá er talað um fjárfestingarþörf greinarinnar. Þetta er auðvitað frasi ekki síðri en þeir tveir sem minnst er á að ofan, og góður til heimabrúks. Hvers vegna skyldi núna í byrjun maí 2015 vera þörf á aðgerðum vegna fjárfestinga í uppsjávarskipum? Í vikunni kom nýr Bjarni Ólafsson til hafnar, sem reyndar er sextán ára gamall en leysir af hólmi 24 árum eldra skip, er með 24% meira burðarmagn og þarf færri í áhöfn. Þar virðist ekki hafa verið neinn fjárfestingarvandi.

HB Grandi á von á nýjum Venusi til hafnar á næstu vikum. Venus og systurskipið Víkingur leysa af hólmi þrjú skip. Samanlögð burðargeta þeirra er meiri en skipanna þriggja sem þau leysa af hólmi, en þau hafa færri í áhöfn og eru á allan hátt hagkvæmari í rekstri. Samkvæmt tilkynningum frá fyrirtækinu stóðu því til boða lánsmöguleikar með lágum vöxtum, sem er ekki oft í boði þegar um er að ræða alvöru „vöntun á fyrirsjáanleika“. Þá segja bankar annaðhvort nei eða fara fram á að óvissunni (alvöru-óvissu) sé mætt með mun hærri vöxtum.

Með þeirri endurnýjun sem nú er að verða er meirihluti uppsjávarflotans  yngri en 15 ára og hefur yfir 2.000 tonna burðargetu. Útgerðarmenn á Íslandi eru fagmenn fram í fingurgóma og vita mun betur en ráðuneytismenn hvernig á að gera út skip með hagnaði í alvöru án „fyrirsjáanleika“ úr ráðuneytinu.

Veiðiheimildir á uppboðsmarkað: Jöfn tækifæri og sanngjarn hlutur eigenda

Þessi grein og umræðan öll um fiskveiðistjórnun væri þess vegna óþörf ef þessum mönnum sjálfum yrði treyst til að verðleggja veiðigjöld með þátttöku í uppboðum á veiðiheimildum. Slík uppboð yrðu að vera þannig að nýliðun sé möguleg, þannig að til dæmis topp-skipstjórar hefðu tækifæri til að afla fjármagns, svo sem með almenningshlutafélögum, til að fjárfesta í nýjum skipum eða notuðum. Slíkir menn ættu sjálfsagt auðvelt með að fá góða sjómenn með sér sem sumir hverjir hafa löngun til að komast í nýtt umhverfi.

Ef makrílveiðar smábáta skila meiri arði en veiðar með stórum skipum mun útgerð smábáta hafa efni á að kaupa eins miklar heimildir og skip þeirra bera, væntanlega að því tilskyldu að hinn hluta ársins hafi sami floti samkeppnisforskot á aðrar gerðir skipa við kaup á heimildum fyrir aðrar veiðar. Ef smábátar eru ekki samkeppnishæfir í makrílnum á frjálsum markaði þá verða eigendur þeirra að sætta sig við það, og leita annað.

Það eru sjómenn sem veiða fisk

Málið er tiltölulega einfalt. Skipstjórar og áhafnir er það sem þarf til að ná í fiskinn þegar veiðileyfi er til staðar. Að kaupa skip er ekkert meiriháttar mál. Skip ganga nefnilega kaupum og sölum. Meira en annað hvert skip sem bæst hefur við í flotann á undanförnum árum var keypt notað, og þau skip sem eru leyst af hólmi ganga kaupum og sölum innanlands og utan. Þekking útgerðarmanna hefur verið notuð í útrás með þátttöku í útgerð erlendis, og hjá útgerðunum starfa  snjallir starfsmenn sem kannski vilja reyna sig í eigin rekstri. Saga Guðmundar Jörundssonar, sem lét smíða skip það sem nú heitir Lundey, er ljóst dæmi um hvað góður skipstjóri getur þegar hann fær tækifæri. Þá má náttúrulega nefna þá Samherjafrændur – einn þeirra sagði upp skipstjórastöðu á flaggskipi Útgerðarfélags Akureyringa til að freista gæfunnar með stórkostlegum árangri.  Slík tækifæri eru í augnablikinu, og kannski næstu sex árin, lokuð en hugmyndin um uppboð á veiðiheimildum er lykillinn að endurnýjun af þessu tagi.

Uppsjávarskip veiða ekki bara makríl, heldur líka síld, loðnu og kolmunna

Ráðherra sjávarútvegs (og Fiskistofu) ætlar að skapa fyrirsjáanleika makrílveiða, þar sem sjálf auðlindin er flökkufiskur sem menn vita ekki alveg hvort er að koma eða fara.

Ekki er líklegt að nokkur maður kaupi skip bara fyrir makríl, þótt hann sé nú um stundir verðmætasti uppsjávarfiskurinn. Uppsjávarflotinn veiðir loðnu, síld og kolmunna auk makríls. Megum við þá ekki búast við fyrirsjáanleika-aðgerðum upp á eitt og hálft kjörtímabil vegna síldar, kolmunna og loðnu?

Hagur þjóðarinnar og „hagsmunaaðilar“

Vandi fiskveiðiumræðunnar er að þjóðin, eigandi auðlindarinnar, hefur ekki verið höfð með í ráðum. Enginn talar bara fyrir hana, heldur eru kallaðir til „hagsmunaaðilar“ sem eiga það sameiginlegt að vilja ekki hámarka arð eigandans af auðlindinni, heldur gæta takmarkaðra hagsmuna og veiða fyrir slikk, helst að eilífu. Sumir þeirra kosta miklu til, halda uppi dagblaði og hafa sett LÍÚ í andlitslyfingu, fengið nýtt nafn og ferskara fólk, en með sama verkefnið: Að forða þjóðinni frá því að fara illa með auðlindaarðinn, með því að sjá um hann sjálfir.

Hefði ekki verið gaman ef ráðuneyti fyrirsjáanleikans hefði látið gera reiknilíkan sem miðaði að hámörkun á arði eigenda og tæki einungis tillit til þess hvernig best er að koma þessum tonnum sem má veiða á markað með sem minnstum tilkostnaði? Öll umræða þaðan í frá hefði síðan tekið mið af því hvernig hægt væri að vinna sem best úr auðlindinni fyrir þjóðina.

Höfundur er menntaður stýrimaður. Hann var háseti á b/v Narfa (nú Lundey sem Venus NS 150 leysir af hólmi).

 

Heimild : kjarninn.is