11186234_10153729776200828_1510180092_nHöfundur: Erling Ingvason.

Haldlaus rök.

Helstu rök þeirra sem mæla kvóta og frjálsu framsali hans í sjávarútvegi bót, eru hagkvæmnisrök; að kvótakerfið sé að færa okkur svo miklu meira aflaverðmæti en áður var. Smávegis grúsk á internetinu fellir þau rök.

Staðreyndin er sú að heimsmarkaðsverð á fiskinum okkar hefur a.m.k. tvöfaldast á þeim tíma sem liðinn er síðan kvótakerfið var sett á. Það skýrir það að við fáum svipað aflaverðmæti út úr helmingi þess aflamagns sem við veiddum áður en ekki kerfið sjálft eða neitt það sem mætti heimfæra upp á það.

Eigum heilmikið inni.
Ef við gefum okkur að við veiddum svipaðan afla og áður en kerfið kom til sögunnar þá væru útflutningstekjur okkar af sjávarútveginum a.m.k. helmingi hærri, það þyrfti fleira fólk til að skapa þær útflutningstekjur, störf þeirra mætti svo margfalda með 2-3 til að fá heildarfjölgun starfa, ríki og sveitarfélög myndu fá af því skatta og svo framvegis. Margfeldisáhrifin gríðarleg, líf og fjör í sjávarbyggðum, að því gefnu að kerfið yrði aflagt og einokunin.

Brask og einokun.
Það eina sem hefur áunnist með þessu kerfi er að búi til nýja afurð; kvótann, sem gengur kaupum og sölum og er leigður út fyrir tugi milljarða á markaði sem hvorki FME né Samkeppnisstofnun hefur eftirlit með. Kerfið er sannkallað fjármálalegt svarthol sem bankar og kvótahafar hrærast í.
Fólk og byggðir hafa verið látin sigla sinn sjó af fullkomnu miskunnarleysi.

Galin kvótafrumvörp.
Það er engin ástæða til annars en að ætla að heimsmarkaðsverð á fiskinum okkar muni aftur tvöfaldast á næstu 30 árum, það er eiginlega nánast gefið, af þeirri ástæðu er alveg galin hugmynd að festa þessi kerfi í sessi og víkja burt ákvæðinu um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar eins og „nýja kvótafrumvarpið“ sáluga og Makrílfrumvarpið gera ráð fyrir.
Þessi frumvörp eiga bæði heima í tunnunni.