Ósvör í Bolungarvík. Geta Bolvíkingar stundað frjálsar veiðar á ný? Mynd Ágúst Atlason.
Ósvör í Bolungarvík. Geta Bolvíkingar stundað frjálsar veiðar á ný? Mynd Ágúst Atlason.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað að íslenskum stjórnvöldum beri að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið og greiða tveimur sjómönnum bætur fyrir að hafa ekki fengið úthlutað kvóta. Þetta kom fram í fréttum í fjölmiðlum í gær.

Hvaða þýðingu þessi útskurður Mannréttindanefndarinnar hefur er ekki hægt að segja til um með fullri vissu. Þó er ljóst að nú hriktir í undirstöðum íslenskra laga um fiskveiðistjórnun.  Mannréttindanefnd SÞ er alþjóðleg stofnun og Ísland hefur skuldbundið sig til að virða úrskurði hennar.

Málsatvik eru þau í stuttu máli að tveir íslenskir sjómenn keyptu kvótalausan bát, en fengu ekki úthlutað neinum kvóta. Þeir fóru þá á veiðar, kvótalausir, og voru kærðir og dæmdir, fyrst í héraðsdómi og síðar í Hæstarétti. Dómþolar og lögmaður þeirra, Lúðvík Kaaber, sóttu málið fyrir Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna á þeim grunni að það snerist um rétt mannanna til að stunda atvinnu að eigin vali til jafns við aðra án þess að þurfa að gjalda fjarstöddum aðila fyrir kvótann.

„Í mínum huga eru íslensk fiskveiðilög búin til úr engu,“ sagði Lúðvík Kaaber á vísi.is eftir að dómurinn var fallinn, en Lúðvík er lögmaður Arnar Sveinssonar, sem sýknaður var af Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf fyrir brot á íslenskum fiskveiðilögum. „Sá dómur sem gerir fiskveiðikerfið löglegt fellur í raun ekkert fyrr en 6.apríl árið 2000 í svokölluðu Vatnseyrarmáli.Sá dómur féll eftir þrýsting frá ráðherrum og hagsmunaaðilum. Það er mín skoðun að þar hafi rangur dómur fallið og eftir það er sífellt erfiðara að leggja þetta kerfi af,“ segir Lúðvík, sem hefur ekki mikla trú á íslenska fiskveiðikerfinu.

„Kerfi sem byggist á gefnum forréttindum er vonlaust. Þú þarft ekki að leita hjá mörgum lögfræðingum eftir þeirri skoðun. Hæstiréttur er hinsvegar ekki þeirrar skoðunar og það er alveg hryllilegt.“

Lúðvík segir að Örn og félagi hans hafi verið dæmdir í Hæstarétti þar sem vísað var í Vatnseyrardóminn. Í kjölfarið sendu þeir kæru til Genfar og mannréttindanefndin tók mál þeirra fyrir sumarið 2006.  Aðspurður um hvers vegna Örn og félagi hans hafi verið sýknaðir fyrir að hafa veitt kvótalausir segir Lúðvík að þeir hafi séð fram á að geta ekki sinnt sínu ævistarfi. „Þeir höfðu valið sér menntun og stefnt að því að starfa við þetta. Síðan er ekki grundvöllur fyrir því að vinna við þetta þegar menn þurfa að borga 80% af öllum sínum tekjum til einhvers sem bara er þarna og á kvótann,“ segir Lúðvík og er þar að tala um hinn svokallaða leigumarkað sem félagarnir urðu að vera á eftir að hafa verið synjað um kvóta sem þeir sóttu um. „Þeir leituðu síðan til æðsta dómstóls í landinu til þess athuga hvort þetta stæðist íslensk grundvallarlög og fengu það.“  Mannréttindanefndin í Genf er síðan ósammála þeim úrskurði Hæstaréttar og staðfestir það með dómi sínum í máli félaganna.

Í frétt á vísi.is í gær var greint frá dómnum og viðbrögðum sjómannanna tveggja sem voru sýknaðir af Mannréttindanfendinni og dæmdar bætur frá íslenska ríkinu.

Í frétt Breka Logasonar blaðamanns segir:

„Það eru átján nefndarmenn sem dæma í málinu og tólf af þeim dæma okkur í hag. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægður yfir því,“ segir Örn Sveinsson stýrimaður og fyrrum skipstjóri á Sveini Sveinssyni BA 325 frá Patreksfirði. Stutt er síðan dómur í máli Arnar og íslenska ríkisins féll hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf. Örn var ekki búinn að sjá dóminn þegar Vísir náði af honum tali en það liggur þó fyrir að málið er unnið.

Áður hafði Örn tapað málinu í héraði en hann hafði farið á veiðar kvótalaus árið 2001.  „Hæstiréttur staðfesti síðan dóm héraðsdóms, án þess svo nokkuð sem líta á hann. Við ákváðum þá að fara með þetta alla leið og niðurstaðan úr því er að koma núna,“ segir Örn sem vandar ekki ráðamönnum þjóðarinnar kveðjurnar.  „Sjávarútvegs, fjármála- eða jafnvel forsætisráðherra ættu kannski að stæra sig af þessu afreki. Þeir eru nú að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu og þetta hlýtur að mæla með því að svona land eigi erindi þangað,“ segir Örn og hlær.

Tildrög málsins eru þessi: Þegar kvótakerfið var sett á var Örn skipstjóri á Tálknafirði og síðar stýrimaður hér og þar. Þá kaupir hann í félagi við tvo aðra Svein Sveinsson BA 325 og sækja þeir um kvóta byggðan á aflareynslu Arna. Til var sóttu þeir um að fá að veiða í þrjú ár og það yrði svo grundvöllur fyrir varanlegan kvóta.  Þessu var hafnað af yfirvöldum.  Þá ákváðu þremenningarnir að fara á svokallaðan leigumarkað, en þar þrengist sífellt um og loks var enginn grundvöllur fyrir útgerðinni og báturinn orðinn nánast verðlaus.

Þá ákvað Örn að fara á veiðar án þess að hafa kvóta og fær annan félaga sinn í lið með sér. Þeir munu sjálfir hafa tilkynnt stjórnvöldum um áform sín.  Félagarnir voru gripnir eftir nokkra túra í september 2001 og í framhaldi af því  var höfðað mál gegn þeim fyrir að brjóta íslensk lög.
Örn sem nú starfar sem stýrimaður á skipi Þörungarverksmiðjunnar á Reykhólum segir að aldrei hafi komið til greina að gefa eftir í þessu máli. „En þegar allar eignir manns eru komnar á uppboð þá er maður ekki rólegur. Ég hef aðeins smakkað á því, spilin hafa hinsvegar snúist við og nú skulu aðrir fá að skjálfa.“

Heimild : skutull.is