Steingrímur Leifsson. Mynd : Hjörtur Gíslason
Steingrímur Leifsson.
Mynd : Hjörtur Gíslason

Frostfiskur í Þorlákshöfn er eitt umsvifamesta fyrirtæki landsins í vinnslu og útflutningi á ferskum fiski. Fyrirtækið vinnur úr um 12.000 tonnum árlega og kaupir allan sinn fisk á mörkuðum eða í beinum viðskiptum við báta. Hjá fyrirtækinu vinna í ríflega 135 manns en þar af eru  35 hjá fiskþurrkun fyrirtækisins í Ólafsvík. Það eru bræðurnir Steingrímur og Þorgrímur Leifssynir sem eiga og reka Frostfisk.  Þeir segja samkeppnisumhverfið í vinnslu á fiski á Íslandi skakkt. Þeim sem veiði og vinni eigin fisk sé búin mun betri  samkeppnisaðstaða en þeim, sem ekki geri út og séu háðir hráefniskaupum á fiskmörkuðum. kvotinn.is heimsótti þá bræður til Þorlákshafnar í síðustu viku.
Samtalið hefst á makrílnum, en frumvarp til laga um veiðar á makríl hefur vakið nokkrar deilur að undanförnu. „Við höfum verið að verka makríl, sem er tiltölulega ný fiskitegund við Ísland. Menn hafa bæði verið að ná tökum á að veiða þennan fisk og vinna hann,“ segir Steingrímur sem mælir fyrir munn þeirra bræðra.

Selja vítt og breytt um heiminn

„Það hafa menn gert á uppsjávarskipum, ísfiskskipum og smábátum. Uppsjávarskipin eiga ekki í neinum vandræðum með þessar veiðar, en við höfum verið að kaupa makríl af ísfiskskipum og smábátum. Við höfum verið að lausfrysta markílinn og selja hann vítt og breitt um heiminn. Það er stundum látið hér eins og við séum að finna upp veiðar og vinnslu á makríl og þá er fréttaflutningurinn á þá leið að við séum í einhverju frumkvöðlastarfi. Það er bara alls ekki rétt, það er búið að vera að veiða og vinna makríl í nágrannalöndunum síðustu 100 árin og löngu búið að finna upp alla þessa tækni. Það eina sem við erum að gera, er að átta okkur á hvernig er best að veiða hann og hvar hann heldur sig og hvernig eigi að meðhöndla veiðarfærin. Við höfum verið að nota tæki og tól sem við eigum, en auðvitað þurfum við að fjárfesta í betri tækjum og tólum og vera með meiri sjálfvirkni ef við ætlum að stunda þessa vinnslu. Við erum byrjaðir að fjárfesta og höfum verið að bögglast dálítið í kringum þetta,“ segir Steingrímur.

Vinnslan á að fá kvótann

Þó ferski fiskurinn sé aðalvinnslan þarf líka að frysta hluta hráefnisins til að nýta allt betur. Mynd : Hjörtur Gíslason
Þó ferski fiskurinn sé aðalvinnslan þarf líka að frysta hluta hráefnisins til að nýta allt betur.
Mynd : Hjörtur Gíslason

En hvernig falla hugmyndir sjávarútvegsráðherra um kvótasetningu á öllum makríl honum í geð?
„Umræðan er svo fljót að setja allt í kvóta og aftur kvóta til að framleiða veðhæfni og styrkja efnahagsreikninga útgerðarfyrirtækja. Við höfum verið að hugsa þetta dálítið bræðurnir og teljum að ef það eigi að kvótasetja makrílinn sé það að sjálfsögðu vinnslan sem eigi að fá kvótann. Það eru fordæmi fyrir þessu í veiðum á hörpudiski. Þá báru vinnsluhúsin ábyrgð á kvótanum og veiddu bara það sem þau gátu selt og gerðu um það samninga við bátana.
Lykillinn í makrílvinnslu er að geta unnið hann, selt og fengið greitt fyrir hann. Þetta er mjög viðkvæmur fiskur sem  skemmist eftir 20 til 40 tíma. Við höfum því sagt að ef ætti að gera þetta af viti, ætti vinnslan að fá kvótann og þá myndu markaðslögmálin ráða þar för. Að sjálfsögðu er vinnslan jafn hæf til þess að ráða yfir kvótanum og útgerðarmenn. En fyrir utan það erum við hlynntir því að fara markaðsleiðina í þessum efnum. Að smábátur bjóði til dæmis í þann afla sem hann ætlar sér að veiða, eða að við bjóðum í einhvern afla á kvótaþingi og semjum svo við smábátinn um það að hann veiði fyrir okkur. Svo væri settur upp annar pottur fyrir ísfiskskipin sem þá kepptu við sína líka um heimildir úr þeim potti á kvótaþingi. Þeir myndu þá leiga til sín það sem þeir treysta sér til og ætla að veiða. Þeir gætu þá betur skipulagt sig, gætu verið í allt að tvo eða þrjá mánuði á makríl. Svo væru frystitogararnir í sér potti og myndu á sama hátt leigja til sín það sem þeir vilja. Þjóðin fengi þá rétt verð fyrir fiskinn sinn og sjómennirnir rétt kaup og hafnirnar fengju gert upp miðað við rétt aflaverðmæti. Þetta má hins vegar ekki því ef þessi tilraun gengi vel í tvö til þrjú ár, væri komið fordæmi fyrir því að svona mætti gera við allan fisk. En það er náttúrulega algjörlega bannað af þeim sem ráða för.“

Markaðsleiðin alltaf best

Er þá markaðsvæðing í úthlutun veiðiheimilda rétta leiðin, bæði fyrir þjóðarbúið og sjávarútveginn sem slíkan?
„Við teljum að markaðsleiðin sé alltaf best og það að vinna í samkeppnisumhverfi sem sé bæði heiðarlegt og gott. Menn eiga bara að læra það að vinna og lifa á tekjum sínum. Það er mikið talað um nauðsynlegan fyrirsjáanleika. Flugfélög hafa ekki fyrirsjáanleika, en þau eru samt að fjárfesta fyrir milljarða. Þau lifa á þeirri auðlind sem er fólk sem er að kaupa sér flugmiða. Þau eru einfaldlega að lifa af tekjum sínum. Fyrirtæki gera það alls staðar í heiminum, í sjávarútvegi líka.
Það eru markaðir úti um allan heim. Það er nóg af fólki til að kaupa fiskinn, það er fyrirsjáanleikinn í sjávarútveginum. Fyrirsjáanleikinn er líka sá að við höfum heildarkvóta á Íslandi sem er af ákveðinni stærð og við ætlum að veiða hann. Það er bara deilt um það hver eigi að veiða hann. Það eru væntanlega hæfustu útgerðarmennirnir, hæfustu skipstjórarnir og sjómennirnir sem veiða fiskinn. Svo þurfum við að vera með góða fiskvinnslu á landi sem er samkeppnisfær, getur keypt fiskinn og selt hann og fengið hann greiddan á hæsta verði. Þetta er hið eðlilega viðskiptaumhverfi í öllum atvinnugreinum, hvort sem það er fiskvinnsla eða annað.

Ættum að þora að fara með makrílinn þessa leið

Þetta er svolítið okkar sýn og ég held að við ættum að þora að fara með makrílinn þessa leið. Kannski yrði það þannig að smábátasjómenn gætu ekki borgað nema tíkall fyrir makrílinn. Það verður þá svo að vera því það verður þá rétt verð. Stærri skipin gætu kannski borgað 20 krónur og það er þá bara rétt verð. Verðið sem nú liggur fyrir í frumvarpi um veiðileyfagjald og frumvarpi um stjórnun makrílveiða er bara handstýrt verð, sem enginn veit hvort er rétt eða rangt. Ef menn geta í einhverjum tilfellum borgað 50 krónur er það bara frábært. Sum árin verður vafalítið hægt að borga minna en önnur. Það verða alltaf sveiflur eftir gengi, markaðsverðum og veiðum en eina leiðin til að finna rétta verðið fyrir eigendur auðlindarinnar, þjóðina, er að láta markaðslögmálin ráða.
Því miður er það lenska á Íslandi að vilja ekki fara að eðlilegum samkeppnisreglum og að menn þori ekki að vera í beinni samkeppni við einhvern annan og vilji ekki að markaðslögmálin ráði. Ekki með nokkru móti.
Kvótakerfið hefur alla tíð verið úrelt og aldrei lotið neinum markaðslögmálum. Við erum búnir að vera í þessu kerfi í 31 ár og ég held að við verðum ekkert önnur 30 ár í einhverju lokuðu stöðnuðu kerfi. Það gengur ekki upp.

Hafrannóknir ekki í takt við tímann

Eitt af þessu bulli öllu er að halda því fram að það sé bara einn þorskstofn við landið. Öllum er ljóst að svo er ekki. Hafrannsóknir þurfa að vera í takt við það sem er að gerst annars staðar í heiminum. Við getum ekki verið í einangrun hér og ekki litið til þess sem er að gerast annars staðar. Það er mikið að gerast í hafrannsóknum í Rússlandi, Noregi og á Nýja-Sjálandi. Þeir eru áratugum á undan okkur í hafrannsóknum. Það er eins og við viljum ekki vita það, því við erum svo uppteknir af því hvað okkar eigin rannsóknir eru „frábærar“. Meira að segja í Skotlandi hafa hafrannsóknir og veiðistýring byggð á þeim gengið mjög vel. Við fáum ekki einu sinni fréttir af því til Íslands.
Annars erum við bara bjartsýnir. Málin eru að þokast í rétta átt og það er meiri krafa um það nú að samkeppnisumhverfið sé jafnað og þetta getur ekki endað öðruvísi en þannig að markaðslögmálin fái að gilda í sjávarútveginum eins og öðrum atvinnugreinum.

Vantar betri heildarsýn yfir stjórn veiðanna

Vinnslan hjá Frostfiski byggist á útflutningi á ferskum fiski. Mynd : Hjörtur Gíslason
Vinnslan hjá Frostfiski byggist á útflutningi á ferskum fiski.
Mynd : Hjörtur Gíslason

Eðlilegt umhverfi er forsenda í atvinnuveginum og rétt verð á aflaheimildum getur ekki myndast nema með opinberum kvótamarkaði með veggi milli útgerðarflokka. Annars myndu smábátarnir verða undir í samkeppninni við stóru útgerðirnar og reyndar öfugt, því stóru skipin komast ekki upp að ströndinni eins og smábátarnir til að veiða makrílinn á færi, dýrmætasta og besta makrílinn. Þessi stóri og góði makríll sem kemur hérna upp að suðvesturströndinni er kannski á tvöföldu eða þreföldu verði miðað við þann sem verið er að taka í trollið. Hann geta aðeins smábátarnir tekið. Þess vegna skilur maður ekki þá ákvörðun í fyrra að stoppa bátana í september í stað þess að leyfa þeim að halda áfram til að veiða allt að 600 gramma þungan makríl. Verðmætasti makríllinn veiðist á haustin, frá september og fram í nóvember því þá er hann feitastur. Þá er hann kannski veiðanlegur út af Vestfjörðum, en þá má ekki veiða hann þar.
Við Íslendingar erum að taka makrílinn þegar hvað lægsta verði fæst fyrir hann, frá júlí og fram í september. Það vantar því betri heildarsýn yfir stjórnun og fyrirkomulag veiðanna. Norðmenn veiða  til dæmis sinn makríl á haustin og eru að fá upp í þrefalt hærra verð miðað við það sem við erum að fá. Þeir hafa langa reynslu að veiðum og vinnslu á makríl og gera það vel.“

Aldir upp við sjávarútveg

En svo snúum við okkur að vinnslunni almennt og ræðum fyrst um upphafið.
„Við bræðurnir byrjuðum að verka fisk sjálfir þegar fiskmarkaðirnir voru að byrja. Við stofnuðum fyrirtækið okkar árið 1992. Við erum uppaldir  við sjávarútveg í Ólafsvík, þar sem foreldrar okkar voru bæði í útgerð og vinnslu. Það hjálpaði okkur þá líka að einokunin í útflutningi á fiski var að brotna upp á þessum tíma, en við höfum verið að verka ferskan fisk síðan þá. Við erum að kaupa fisk og selja og lifum á þeirri framlegð sem við sköpum. Í því felst okkar fyrirsjáanleiki. Hann er dálítið eins og í öllum fyrirtækjum alls staðar í heiminum. Þau þurfa að lifa af tekjum sínum. Við búum ekki við ríkisaðstoð eins og kalla má kvótakerfið hérna á Íslandi. Við höfum engar kvótatekjur. Við lifum af því að kaupa fisk, verka hann og selja og það hefur gengið í allan þennan tíma. Við höfum bæði átt góð ár og slæm og glímt við alls konar vandamál og einfaldlega leyst þau.“

Aðrar reglur fyrir stórútgerðir

Allt sem kemur á land er nýtt og fara aukaafurðir í aðra vinnslu. Það á meðal annars við um roð, innvols, afskurð og hausa. Mynd : Hjörtur Gíslason
Allt sem kemur á land er nýtt og fara aukaafurðir í aðra vinnslu. Það á meðal annars við um roð, innvols, afskurð og hausa.
Mynd : Hjörtur Gíslason

Hvernig gengur að keppa við fyrirtæki sem veiða og vinna sinn eigin fisk og fá hann því á lægra verði inn í vinnsluna?
„Alltaf höfum við verið að keppa við fyrirtæki sem eru að fá fiskinn á mun lægra verði og kannski með upp í 20% betri nýtingu vegna þess að stórútgerðir á Íslandi eru með allt aðrar reglur til að fara eftir í innvigtun á fiski, en þau fyrirtæki sem kaupa allan sinn fisk á mörkuðum. Við erum að kaupa fisk með undirvigt í raun. Við höfum ekki sömu  heimild til eigin vigtunar og þeir sem eru að vinna eigin fisk og vigtun á okkar fiski er lokað á hafnavoginni með 3% íshlutfalli. Stórútgerðin er hins vegar oft að vigta 20% ís frá við innvigtun. Þetta eru þeir viðskiptahættir sem tíðkast á Íslandi og fyrir vikið erum við að keppa í skökku umhverfi og þar er margt fleira sem kemur til.
Sem dæmi hafa sumar stórútgerðir leyfi til þess að landa sínum fiski beint inn til sín án þess að fara með fiskinn á hafnarvog og oftast eru þessari aðilar með yfir 50% nýtingu í þorski á  meðan við erum kannski að keyra á 36 til 37% nýtingu. Svo eru enn aðrir með undanþágu frá vigtunarreglugerð. Þetta er að sjálfsögðu samkeppnismismun. Við stílum inn á að kaupa þann fisk sem við getum selt á hverjum tíma og erum því háðir því að kaupa réttu stærðirnar, rétta fiskinn af réttu gæðunum á réttum tíma.
Við seljum fisk til Ameríku, Bretlands og um alla Evrópu. Við erum að dreifa sölunni og erum ekki háðir neinum einum kaupanda eða einum markaði. Við reynum að dreifa áhættunni eins og við getum. Fyrir vikið er alltaf eftirspurn hjá okkur og við erum alltaf með einn sterkan markað. Við getum tekið dæmi um Ameríku, en dollarinn hefur verið veikur undanfarin ár. Nú er dollarinn að styrkjast og þá getum við aukið söluna þangað og dregið saman einhvers staðar annarstaðar á móti. Við þurfum að vera dálítið vakandi og lifandi og við þurfum að mæta í vinnuna. Við seljum allt ferskt sem við getum á hæsta mögulegu verði en við verðum að vera með frystingu líka til að nýta allan fiskinn sem við kaupum inn. Við hendum engu, við seljum allt, roðið, innmatinn, hausinn og svo framvegis. Hver einasta arða af fiskinum er seld og það er okkar styrkur.“

Hve mikið eruð þið að taka í gegnum húsið í Þorlákshöfn á ári?

 

Vinna úr 12.000 tonnum á ári

„Við erum að taka um það bil 12.000 tonn af fiski inn til vinnslu á ári hér í Þorlákshöfn og starfsmenn eru um 100. Í Ólafsvík rekum við fiskþurrkun og erum með 35 manns í vinnslu. Þar þurrkum við það sem til fellur við vinnsluna hér og þjónustum fiskvinnslur á Snæfellsnesi. Við erum fyrir vikið stærsti einstaki fiskkaupandinn á fiskmörkuðum á Íslandi. Í þessi 23 ár, sem við erum búnir að vera til, hefur landssambandsverð milli útgerðar og fiskvinnslu í eigu sömu aðila alveg örugglega verið 30 til 40% lægra en það sem við höfum verið að greiða fyrir okkar hráefni. Oftast eru svo þessir sömu aðilar að keppa við okkur á sömu mörkuðum úti í heimi. Við höfum þar ekkert svigrúm til að gefa afslátt. Við verðum að ná persónulegu sambandi við alla okkar kaupendur og vera í góðu sambandi við þá,annars töpum við stríðinu.
Við erum búnir að vera að selja ferskan fisk frá árinu 1992. Þá var fiskvinnslan umhverfis landið í hefðbundinni frystingu eða söltun. Það er ekki fyrr en fyrir um 10 árum sem öll þessi frystihús fóru að sjá hagræðinguna af því að fara út í ferskfiskvinnslu, því verðmunurinn var orðinn tvöfaldur ferska fiskinum í hag. Þeir hafa því verið að apa upp það sem við frjálsu fiskverkendurnir höfum verið að gera í 23 ár. Þeir hafa bara verið að ná sömu stöðu og við síðustu tíu árin. Nú er þessu þannig komið að hver einasta fiskverkun allt frá þeirri smæstu upp í þá stærstu allt í kringum landið er að gera það sem við höfum verið að gera allan þennan tíma.
Við þurftum engan „fyrirsjáanleika“ í tengslum við veiðar og vinnslu á þeim tíma. Þetta er eins konar nýyrði sem menn hafa fundið upp til að vernda eigin hagsmuni.“

Þjálfaðir í skökku samkeppnisumhverfi

Hvernig er þá staðan hjá ykkur núna. Það er ekki að sjá miklar breytingar í fiskveiðistjórnun og umhverfinu á næstu árum?
„Við erum orðnir þjálfaðir í að vinna í skökku samkeppnisumhverfi. Við höfum fundið okkur farveg í að hafa sátt í kringum okkur. En við erum reyndar létt pirraðir á því að þurfa að hlaupa á fjórföldum hraða miðað við aðra. Það sem fer mest í taugarnar á okkur er að ekki skuli vera sama regla varðandi innvigtun á fiski í allar fiskvinnslustöðvar. Þó sumir séu með aflaheimildir og séu að keppa við okkur og séu að veiða og vinna sinn fisk, finnst okkur það allt í lagi ef reglur eru þær sömu fyrir alla aðila sem eru innvigtunarreglur og uppgjörsmál sjómanna. Með þessu móti yrði allt umhverfið miklu heilbrigðara fyrir alla.
Þá er að verða sú þróun að einyrkjum sem selja fiskinn á markaði fer fækkandi. Eigendurnir eldast og selja frá sér heimildir og hinir stóru eru þeir einu sem hafa efni á að kaupa. Bátur sem selur þorsk eða ýsu á markaði fyrir 400 krónur á kílóið,  gerir upp við sína sjómenn á því verði. Á sama tíma gerir útgerð sem selur beint til eigin vinnslu upp á 200 krónur við sína sjómenn. Sá sem gerir upp við sjómennina á 400 krónur stendur miklu verr en hinn. Hann getur hvorki keypt sér bát né kvóta eða ný tæki. Hinn hefur meira svigrúm til þess, hann á miklu meira eftir og getur fjárfest í kvóta og því eru líkur til þess að aflaheimildirnar færist yfir á þá og fiskmarkaðirnir smám saman deyja út.

Í eins konar bankastarfsemi

Við getum svo fært okkur ofar í keðjuna og litið á uppsjávarskip sem eru að veiða loðnu, síld, kolmunna og makríl. Þau eru með svokallaðan þorskígildisstuðul sem var örugglega fundinn upp af uppsjávarskipaflotanum á sínum tíma. Þau geta keypt inn á sig bolfisk, þorsk, ýsu, ufsa og svo framvegis, geta vistað það á eigin skipum en þurfa ekki að veiða hann eins og aðrir vegna þess að ígildin teljast af uppsjávarveiðunum. Útgerðirnar geta því keypt bolfiskkvóta og leigt frá sér og eru þá í raun í eins konar bankastarfsemi. Kvótaleigan borgar smám saman upp kvótakaupin plús smá álagningu. Því er miklu meira upp úr því að hafa að leigja kvótann en veiða hann, því ef hann er veiddur þarf að borga sjómönnum hlut og leggja í kostnað við veiðarnar. Ísfiskskipin eru háð því að veiða sínar aflaheimildir og hafa því ekki sömu möguleika á því að kaupa kvóta. Þessu þarf að breyta og setja upp eldvegg þarna á milli til að koma í veg fyrir þá samkeppnismismunun sem þetta fyrirkomulag leiðir til. Það þarf eldveggi milli útgerðarflokka til að koma í veg fyrir óæskilega þróun sem felst í flutningi aflaheimilda milli þeirra með tilheyrandi röskunum. Þetta á ekki að vera bankastarfsemi eða slíkur bissness, heilbrigðasti kosturinn á ávallt að vera að fyrirtæki hafi mestan hag af því að veiða og vinna sínar aflaheimildir,“ segir Steingrímur Leifsson.

 

Heimild : kvotinn.is

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!

Svipað efni