11169081_10153729775930828_1112971528_n-300x289
Kvótagreifar láta kné fylgja kvið í samskiptum við sjómenn sem eiga sér enga vörn gegn því ofurvaldi sem kvóta“eignin“ bærir böðlunum.

Dag einn sumarið 2014 vantaði mann á Þorlák ÍS 15. Þrátt fyrir mikla leit fannst enginn sem var bæði vanur og hafði áhuga. Að kvöldi brottfarardags kom einhver pjakkur sem titlaði sig útgerðarstjóra, truflaði leitina til að kalla fund og jós úr skálum reiði sinnar yfir okkur yfir að vera ekki farnir. Hélt tölu yfir okkur þar sem hann benti á að skv. samningum værum við á hærri raunhlut einum færri (sem við nánari eftirgrennslan reyndist haugakjaftæði). Skemmst er frá að segja, áhöfninni til hróss, að bátsmenn og nokkrir til svöruðu honum fullum hálsi, og ráku vitleysuna lóðrétta ofan í hann aftur. Að lokum leystist hnúturinn þegar 14. maðurinn fannst. Ekki var hann neitt sérstakur, en hér varð prinsippið ofan á: þú skikkar ekki áhöfn úr höfn manni færri með orgi og lélegum möndlunum á sannleikanum. Eftir því sem undirritaður kemst næst eru fáir eftir af þeirri áhöfn sem um ræðir. Skyldi engan undra, jafnvel þó hér sé á ferð aflaskip og kvótasterk útgerð. Sjálfur er undirritaður kominn til Noregs, unir hag sínum vel hjá norskri útgerð og þénar meir fyrir sömu vinnu og heima. En óneitanlega reikar hugurinn oft til drengjanna sem draga línuna á Fróni. Synd að eins góðir sjómenn og hinir íslensku eru skulu bera jafn rýran hlut úr býtum og raun ber vitni. Hversu oft skyldu vera kallaðir „fundir“ líkir þeim sem hér var lýst? Hversu oft skyldi vilji áhafnar vera brotinn á bak aftur?