Bergsteinn Sigurðsson,dagskrárgerðarmaður
Um 29 þúsund manns hafa undirritað áskorun til forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs. Tilefnið er frumvarp sem sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram sem kveður á um að aflaheimildum í makríl verði úthlutað til sex ára.
Uppsagnarákveðið hrekkur skammt
„Menn segja að það sé uppsagnarákvæði í þessu en það er þannig að það verður að segja upp með sex ára fyrirvara,“ sagði Þorkell í samtali við Síðdegisútvarpið. „Það verður kosið á milli, það verða tvær ríkisstjórnir hið minnsta, jafnvel þrjár – þrjú kjörtímabil verða menn að vera sammála ef menn ætla að segja þessu upp af því að uppsögn er alltaf hægt að draga til baka. Þannig að í mínum huga er þetta nokkurn veginn samasem og ótímabundin úthlutun.“
Í lögum um fiskveiðistjórnun er kveðið á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Þorkell telur það þó ekki nógu skýrt.„Ef það væri í stjórnarskrá ákvæði eins og stjórnlagaráð lagði til dæmis til, þá teldi ég víst að makrílfrumvarpið bryti í bága við stjórnarskrána.“
Þjóðin komi beint að málum
Þorkell rifjar upp að stjórnlagaráð, sem hann átti sæti í, lagði líka ríka áherslu á að þjóðin gæti komið beint að málum og undirskriftasöfnunin væri í þeim anda.
„Það var talað um það að tíu prósent atkvæðabærra gætu kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga í staðinn fyrir að eiga það undir forseta. Sumum þótti það of lágt hlutfall, tíu prósent eru um 24 þúsund undirskriftir. Við erum komin með verulega meira, það væri gaman ef þetta færi í fimmtán prósent.“