Mynd: RÚV
Mynd: RÚV

Freyr Gígja Gunnarsson

Fiskistofa telur óraunhæft að úthluta makrílkvóta á þessu ári samkvæmt ákvæðum frumvarps Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegsráðherra. Umfangsmikla vinnu þurfi innan Fiskistofu til að hrinda frumvarpi ráðherrans í framkvæmd en stofnunin eigi erfitt með að taka við nýjum verkefnum.

Þetta kemur fram í umsögn Fiskistofu um frumvarpið sem send var atvinnuveganefnd Alþingis í dag. Þar er gagnrýnt hversu seint frumvarpið sé á ferðinni miðað við að úthluta eigi aflamarki á grundvelli frumvarpsins á þessu ári.

Segist eiga erfitt með að taka við nýjum verkefnum

Fiskistofa segir að veiðar á makríl hefjist yfirleitt í maí og reglugerð um veiðarnar hafi undanfarin ár verið gefin út í apríl. „Það verður því ekki séð hvernig mögulegt á að vera að úthluta aflahlutdeildum og aflamarki samkvæmt frumvarpinu áður en veiðitímabilið hefst,“ segir í umsögninni.

Fiskistofa segir enn fremur að umfangsmikla vinnu þurfi innan stofnunarinnar til að hrinda þessum áformum í framkvæmd. Fiskistofa eigi sérstaklega erfitt með að taka við nýjum verkefnum um þessar mundir þar sem starfsemi hennar hafi verið uppnámi síðan í júni. Þá kynnti Sigurður Ingi áform sín um flutning stofnunarinnar.

Í umsögninni segir að það sé háð mikilli óvissu hvort hún ráði við að innleiða ný og umfangsmikil verkefni með stuttum fyrirvara.

Ræður varla við núverandi verkefni

Fiskistofa tekur í sama streng í umsögn sinni við veiðigjaldafrumvarp Sigurðar Inga. Sú umsögn barst atvinnuveganefnd á mánudag.

Þar segist stofnunin varla ráða við að sinna verkefnum sínum og fljótlega þurfi að lækka þjónustustig í ýmsum málaflokkum. Útilokað sé að hún ráði við að innleiða ný og umfangsmikil verkefni með stuttum fyrirvara.

Fiskistofa segir að í frumvarpinu séu lagðar fram tillögur um ný verkefni – meðal annars söfnun upplýsinga um veiðidaga og vinna við áætlun ýmissa tekju- og gjaldliða fyrir veiðigjaldsnefnd.

Stofnunin segir í umsögn sinni að ekki sé heppilegt að hlaða nýjum verkefnum á Fiskistofu í núverandi ástandi  –  fjöldi fólks hafi sagt upp störfum og ekki hafi verið hægt að ráða nýja starfsmenn eftir að ráðherra kynnti áform um flutning.

Andað hefur köldu milli ráðherrans og starfsfólks Fiskistofu síðan áform um flutning stofnunarinnar frá Hafnarfirði voru kynnt. Starfsmenn hennar kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingagjöf ráðherrans hefði ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti

 

Heimild : ruv.is