Spurningar
Um kaup á aflaheimildum á árinu 1989
sem fór ótrúlega leið um hið opinbera kerfi okkar, uns það varð að
Hæstaréttardómi nr. 291/1993 og fleiri tengd atriði.
Erindið, sem hér er borið fram, er vonandi dálítið sérstakt en þó mikilvægt, vegna þeirrar heimilda sem ég er að taka saman um sjávarútveg á Íslandi frá lýðveldisstofnun árið 1944. Ég varð dálítið undrandi þegar ég rakst á ofangreindan dóm, sem hér er vísað til. Að öllu eðlilegu hefði það mál sem þar er deilt um, ekki átt að geta komið fyrir dómstóla sem átök um skattaskil og eignfærslu í efnahagsreikning einkafyrirtækis, því þau viðskipti sem í dómnum var fjallað um, áttu ekki að geta farið fram með lögmætum hætti. Söluaðili var ekki löglegur eigandi þess sem hann seldi. Eigandi þess sem selt var hafði ALDREI gefið lögformlega heimild til sölunnar og EKKERT var til í lögum eða öðrum reglum, viðurkenndum af eiganda þess sem selt var, sem gat flokkast sem ótímabundinn langtímakvóti. Að hinu leytinu var um að ræða sölu á nýtingarétti sem útgerð fékk úthlutað ókeypis forgangsrétti til veiða tiltekið magn af fiski. Þar sem eigandi auðlindarinnar varð að forgangsraða úthlutun veiðiheimilda en jafnframt fá fulla nýtingu heildaraflans, er ljóst að þeim handhafa veiðiréttarins, sem ekki ætlaði sjálfur að nýta heimildina til veiða, bar að skila aflaheimildunum aftur til sjávarútvegsráðuneytis, án gjalds, svo ráðuneytið gæti úthlutað aftur „án gjalds“ þeim aflaheimildum til annars skips. En kryfjum nú málið.
FORSAGA MÁLSINS.
Upphaf málsins virðist felast í því að árið 1989 kaupir útgerðarfélag aflaheimildir af öðru útgerðarfélagi. Hvernig þau viðskipti gátu farið fram fyrir opnum tjöldum er í raun afar áhugavert í ljósi þess að EKKERT útgerðarfélag hafði á þeim tíma, og hefur ekki enn, nauðsynlega og löglega eignarstöðu yfir aflaheimildum til að geta verið seljandi aflaheimilda. Þeim sem til þekkja á að vera ljóst að frá upphafi fiskveiðistjórnunar í ársbyrjun 1984 hefur sjávarútvegsráðherra einungis úthlutað aflaheimildum til eins árs í senn. Þá er til þess að líta að á árinu 1989 voru enn í gildi lög nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða í takmarkaðan tíma eða til ársloka 1990.
Frá upphafi stjórnunar á aðgangi að fiskimiðum okkar, í ársbyrjun 1984, voru fyrstu tvenn lögin til eins árs hvert. Þá voru sett lög til tveggja ára, 1986 og 1987 og í ársbyrjun 1988 voru sett lög sem gilda áttu til ársloka 1990. Þau lög, nr. 3/1988, voru því í gildi þegar framangreind viðskipti áttu sér stað.
Þau viðskipti sem fram koma í umræddu dómsmáli eru í raun tvennskonar. Annars vegar kaup á aflaheimild ársins, sem dómurinn kallar (skammtímakvóta). Hins vegar voru kaup á því sem dómurinn nefnir AFLAHLUTDEILD, (langtímakvóta), sem veitir ótímabundna heimild til fiskveiða á nytjastofnum hér við land.
Það merkilega við þessi viðskipti er aðallega tvennt. Í fyrsta lagi að í lögum um stjórn fiskveiða á þessum tíma, lögum nr. 3/1988, var EKKERT talað um aflahutdeild eða langtímakvóta. Eins og áður var getið var aflaheimildum einungis úthlutað til eins árs í senn og í lögunum er talað um AFLAMARK, aflaheimild og veiðiheimild. Hugtakið AFLAHLUTDEILD eða (langtímakvóti), kemur ALDREI fyrir í þeim lögum sem giltu þegar viðskiptin áttu sér stað. Í þessu sambandi, og öðrum, er óskað svara frá Ríkisskattstjóra við eftirfarandi spurningum.
- Með fiskveiðistjórnun er verið að hefta frjálsan aðgang útvegsmanna að fiskimiðum okkar, vegna meintrar of mikillar sóknar í tiltekna veiðistofna. Grundvöllur fyrir úthlutun veiðiheimilda byggir á forgangsröðun leyfa til að veiða það heildarmagn sem talið er óhætt að veiða það árið. Þar sem fiskurinn er ein af meginundirstöðum tekjuöflunar þjóðfélagsins, gefur auga leið að fullnýting auðlindarinnar er þjóðinni afar mikilvæg. Út frá því sjónarmiði getur það aldrei orðið valkvætt fyrir þann, sem vegna „forgangs“ síns fær úthlutað tilteknu magni aflaheimilda, hvort og þá hvernig hann nýtir hina úthlutuðu aflaheimild. Þjóðin þarfnast teknanna sem aflaheimildin gefur af sér í útflutningstekjum, þannig að útgerðin sem sækir fiskinn er einungis einn hlekkur í keðju tekjuöflunar þjóðarinnar. Komi eitthvað fyrir er hindri að úthlutunarhafi geti sótt það aflamagn sem honum var úthlutað, á honum að vera skylt að tilkynna það strax til Fiskistofu svo úthluta megi óveiddum hluta af úthlutun ársins til annars skips, í samráði við sjávarútvegsráðuneytið.
Eins og texti laganna hljóðar fylgir úthlutun veiðiréttar engin eignarréttindi í neinum skilningi, heldur tiltekinn forgangur að veiðum úthlutaðs aflamagns til tekjuöflunar fyrir þjóðfélagið. Í ljósi framanritaðs er spurt: Hvernig sér Ríkisskattstjóri lagaforsendur fyrir söluheimild á úthlutun forgangsréttar til veiða?
- Hugtakið AFLAHLUTDEILD, (langtímakvóti) hefur aldrei verið finnanlegt í lögum nr. 3/1988. Spurt er: Hvernig byggir Ríkisskattstjóri lagastoð undir þau viðskiptaheiti sem nefnd eru í framangreindu dómsmáli og hvernig útskýrir hann sölu á langtímakvóta á árinu 1989, t. d. með hliðsjón af 40. gr. stjórnarskrár?
- Eignfærsla verðmæta í efnahagsreikning, krefst sannanlegrar eignar seljandans á viðkomandi verðmætum. Sú sönnun felst t. d. í undirritun löglegs heimildaskjals til seljandans, frá skráðum eiganda, um að hann megi selja þau verðmæti sem seld eru. Kaupandinn sem hyggst eignfæra hinar keyptu aflaheimildirnar í efnahagsreikning sinn og fyrna samkvæmt skattalögum, verður að hafa undir höndum löglegan sölureikning frá skráðum eiganda hinna seldu verðmæta. Í þessu sambandi er spurt: Var sú sala sem að framan er getið og fór fram árið 1989, byggð á lögmætum skjölum, þar með lögum frá Alþingi (samanber 40. gr. stjórnarskrár) sem heimili söluna?
- Forsendur eignfærslu aflaheimilda samkvæmt framangreindum dómi, virðast fengnar með því að „telja“ þann sem seldi AFLAHLUTDEILD (langtímakvóta), eiga rétt á einhverju hlutfalli útdeilds heildarafla næstu ára. Fyrir þeirri kenningu finnast hins vegar engin haldbær lagafyrirmæli, gögn eða rök.
ENGIN SKYLDA hvílir á sjávarútvegsráðherra að útdeila aflakvóta næstu ár eftir úthlutun með óbreyttu fyrirkomulagi. ENGIN haldbær rök eru því til sem gera ráðherra skylt að úthluta sömu skipum sama hlutfalli heildarafla ár eftir ár. Slíkt er andstætt þeirri meginreglu sem allir hagsmunaaðilar sameinuðust um á Fiskiþingi ársins 1983, við undirbúning fyrstu lagasetninguna um fiskveiðistjórnun, sem afgreidd voru rétt fyrir jólin 1983.
Umrædd fjöldasamþykkt var send Alþingi sem niðurstaða Fiskisþings 1983 og sú niðurstaða var staðfest af Alþingi sem meginregla, með því að láta óbreytta samþykkt Fiskiþings fylgja lögum nr. 82/1983, sem lögskýringarskjal. Fylgiskjali þessu var ekki ætluð tímamörk, þar sem það hefði ekki lengur gildi. Það átti hins vegar við um lögin sjálf. Þau giltu einungis til ársloka 1984 en lögskýringarskjalið hefur aldrei verið fellt úr gildi. Meginreglan frá upphafi, um hvernig standa skyldi að úthlutun aflaheimilda, hefur því verið óbreytt allan tímann. Sú meginregla kemur fram í 4. tölulið fylgiskjals laga nr. 82/1983 þar sem kveðið er á um, að aflareynsla þriggja síðustu ára fyrir úthlutun hverju sinni, skuli mynda grundvöll til úthlutunar aflaheimilda.
Með hliðsjón af framansögðu verður ekki séð að nein lagaheimild sé fyrir því að útgerð geti talið sig hafa sölurétt á AFLAHLUTDEILD (langstímakvóta), hvorki á árinu 1989 eða þeim árum sem liðin eru, allt til dagsins í dag. Alþingi hefur ekki enn breytt þeim meginreglum sem fólust í lögskýringarskjalinu með lögum nr. 82/1983, um hvernig skuli staðið skuli að úthlutun aflaheimilda. Alþingi hefur ekki enn fellt lögskýringarskjalið úr gildi og engar nýjar reglur lögfestar í stað þeirra reglna. Þær reglur eru því enn sá löglegi grundvöllur sem vinna á eftir við mat á hlutdeild skipa í heildarafla ársins. Af þessu tilefni er spurt:
Hvaða lagaheimildir hefur embætti Ríkisskattstjóra til að fallast á að „seldar“ aflaheimildir, þar sem sala hefur ekki verið staðfest af Alþingi, samanber 40. gr. stjórnarskrár; að slík sala skuli viðurkennd sem lögleg ráðstöfun sem heimili eignfærslu í efnahagsreikning þeirrar útgerðar sem keypti?
- Frá 1. janúar 1994 hefur fiskur verið virðisaukaskattskyldur (VSK) í lægra skattþrepi. Aflaheimildum er úthlutað í magntöluvigt, kílóum eða tonnum. Seld aflaheimild er í raun ekkert annað en fyrirframgreidd sala á fiski, rétt eins og hver önnur fyrirframgreidd sala í hvaða vöruflokki sem er. Sama á við um þá sölu aflaheimilda sem í daglegu tali gengur undir nafninu „kvótaleiga“. Framangreindar fyrirframsölur fisks, hafa aldrei verið felldar undir vörur sem undanþegnar eru VSK. Það þýðir í raun að frá 1. janúar 1994 hefur sala (leiga) aflaheimilda verið VSK-skyld, en sá skattur ekki innheimtur af skattayfirvöldum. Enn skal svo vísað til 40. gr. stjórnarskrár, þar sem segir að: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.“ Í þessu sambandi er því spurt:
Hvað tefur skattayfirvöld frá því að innheimta lögskipaðan virðisaukaskatt af ÖLLUM sölum eða leigum aflaheimilda og beina þeirri innheimtu aftur í tímann svo langt sem lög leyfa um álagningu undanskota frá skatti?
- Í ljósi 4. Spurningar hér að framan og með vísan til ársreiknings HB Granda hf. fyrir tekjuárið 2014, með samanburðartilvísun til ársins 2013, kemur eftirfarandi í ljós. Allar upphæðir í ársreikningnum eru í Evrum, en undirritaður færði þær yfir í íslenskar krónur miðað við gengi 31.12. 2014 og setur þær upplýsingar í bláan lit og skáletur, til frekari aðgreiningar. Í Rekstrarreikning ársins 2014 kemur eftirfarandi fram:
- Árið 2014 Árið 2013
Seldar vörur í Evrum 214.911.000 195.033.000
Seldar vörur í Ísl.kr 33.154.319.970 30.087.740.910
Kostnaðarverð í Evrum 154.819.000 144.633.000
Kostnaðarverð í Ísl.kr 23.883.927.130 22.312.532.910
Við skoðun ársreikningsins kemur í ljós að afar takmörkuð sundurliðun er á rekstrargjöldum. Rekstrarútgjöld upp á tæpa 24 milljarða ísl. króna bera enga sundurliðun í rekstrarreikning og ekkert skýringarnúmer, þannig að sundurliðun sé í skýringum. Undirritaður er afar undrandi á þessum vinnubrögðum, minnugur margra athugasemda frá skattayfirvöldum ef ósundurliðuð samtöluupphæð í uppgjöri fór yfir 10% af rekstrarkostnaði.
Hvað varðar rekstrarkostnað vek ég t.d. athygli á umtalsverðum fjölda tilfærslna á aflaheimildum á árinu 2014. Færslurnar eru samtals 460 með samtals rúmlega 18.518 tonn, sem færast á milli skipa. Þar af eru 9.200,5 tonn sem færast á milli skipa sömu útgerðar en samtals 9.317,8 tonn færast á milli óskyldra aðila. Sérstök athygli er vakin á því að allar þessar tilfærslur aflaheimilda skila þó fyrirtækinu HB Granda hf. ekki nema 0,10% aukningu þorskígilda.
Ef mið er tekið af verði á aflaheimildum milli óskyldra aðila, er þarna um umtalsverðar fjárhæðir að ræða, sem vart getur verið ásættanlegt að ekki komi fram í rekstrarreikningi. Þarna er óumdeilanlega um að ræða kaupa og söluferli milli óskyldra aðila, sem eiga að bera í sér veltuskatta til ríkissjóðs.
Þar fyrir utan, eins og Ríkisskattstjóri veit væntanlega, hefur fyrirframgreidd sala á fiski (kvótasala) aldrei verið undanþegin greiðslu virðisaukaskatts. Það virðist því ljóst að í þessu umfangsmikla söluferli aflaheimilda, sem stærsti handhafi aflaheimilda á öllu landinu hefur stundað á árinu 2014, hefur skilaskylda viðkomandi aðila á virðisaukaskatti af viðskiptunum verið fullkomlega sniðgengin, ásamt því að viðskiptin virðast ekki hafa verið færð á löglega sölureikninga með staðfestri söluheimild hins löglega eiganda auðlindarinnar sem selt var úr.
Í ljósi þess að undirritaður er að skrá sögu sjávarútvegs á Íslandi frá Lýðveldisstofnun til vorra daga, er lögð áhersla á mikilvægi þess að fá greinargóð og skýr svör við framangreindum spurningum. Leyfir undirritaður sér að vænta slíkra svara svo fljótt sem auðið er, því samhljóða spurningar og nokkrar til viðbótar, verða lagðar fyrir viðkomandi þingnefnd, fjármála- og atvinnumálaráðuneytin, til að afla sem gleggstra upplýsinga.
Virðingarfyllst
Reykjavík 27. apríl 2015
Guðbjörn Jónsson