Á fyrstu tveimur árum fiskveiðistjórunar eru sett einföld lög sem aðeins giltu til eins árs í senn. Fyrri lögin fyrir árið 1984 og nánast eins lög fyrir árið 1985. Síðan voru sett lög sem giltu fyrir tvö ár, þ. e. árin 1986 og 1987. Í fjórðu lotu voru svo sett lög til þriggja ára þ. e. 1988 til ársloka 1990, en það ár voru sett ótímasett lög nr. 38/1990, sem tóku gildi í ársbyrjun 1991.
Á þessum fyrstu árum fiskveiðistjórnunar voru verulegar takmarkanir á heimildum til að flytja aflaheimildir milli skipa. Var slíkt bundið við skip sömu útgerðar, skip frá sömu verstöð, eða um væri að ræða jöfn skipti, í þorskígildum talið. Annar flutningur aflaheimild var ekki heimill.
Aflaheimildum hefur frá upphafi einungis verið úthlutað í formi ókeypis nýtingarréttar auðlindarinnar til eins árs í senn. Og það heildarmagn sem veiða má af hverri fiskitegund, á hverju ári, takmarkast af tillögu Hafrannsóknarstofnunar um heildarafla úr helstu nytjastofnum, fyrir eitt ár í senn. Í upphafi var mikið deilt um aðferðir við að skipta leyfðu heildarmagni niður á einstök skip.
Á Fiskiþingi árið 1983, áður en fyrstu lögin voru sett, náðist nokkuð víðtækt samkomulag um hvernig mynda skildi áunninn rétt skipa til úthlutunar aflaheimilda. Var sú regla, ásamt mörgum öðrum ákvörðunum, sett í skjal sem sent var Alþingi sem ályktun Fiskiþings.
Skjali þessu breytti Alþingi ekkert en gerði það í heild sinni að fylgiskjali með fyrstu lögunum nr. 82/1983, einskonar (lögskýringarskjali) um fjölmörg atriði er vörðuðu takmörkun heimilda til fiskveiða. Þau lög voru með afar umdeilanlegum hætti þvinguð, með næturfundum, í gegnum Alþingi sem fyrir var að venju með yfirhlaðna dagsrkrá, rétt fyrir jól árið 1983.
Úthlutunarregla aflaheimilda, sem breiðfylking aðila í sjávarútvegi samþykktu á Fiskiþingi 1983, var af Alþingi meðtekin og send með lögunum til framkvæmdavaldsins, sem meginregla til úthlutunar aflaheimilda milli skipa. Var það reglan úr 4. tölulið skjalsins frá Fiskiþingi ársins 1983, um að meðaltals veiði síðustu þriggja ára fyrir úthlutun aflaheimilda, skildu mynda veiðireynslu til grundvallar úthlutunar aflaheimilda hvers skips úr leyfðum heildarafla komandi fiskveiðiárs.
Þessa grundvallarreglu sátta um fiskveiðistjórnun hunsaði hinn nýskipaði sjávarútvegsráðherra, sem var vanhæfur til starfans þar sem hann var sonur stórútgerðarmanns og hluthafi í fjölskylduútgerðinni. Framhjá þessu alvarlega broti á vanhæfisreglu hefur Alþingi alla tíð litið og þo ítrekað hafa verið vakin athygli á þessu broti, hefur Alþingi verið ófáanlegt til að fjalla um þau fjölþættu stjórnarskrárbrot sem falist hafa í fiskveiðistjórnun alveg frá upphafi slíkrar stjórnunar á árinu 1984.
Nafn þessa pistils er spurning sem um nokkurt skeið hefur brunnið í huga mikils meirihluta þjóðarinnar, án þess að Alþingismenn okkar hafi séð sóma sinn í að svara umbjóðendum sínum af hreinskilni varðandi spursmálið. Getur raunveruleikinn verið sá að þingmenn þjóðarinnar hafi ekki nauðsynlega þekkingu til að geta tekið afstöðu til mikilvægustu spurningar sem þjóðin ætlast til að þeir svari. Spurningar sem lengi hefur verið uppi varðandi eina af helstu gjaldeyrisauðlindum þjóðarinnar? Hver getur ástæða verið fyrir því að þingmenn allra flokka hafa í áratugi verið eins og kettir í kringum heitan graut, í þessu máli. Enginn þorað að hverfa frá málinu og segja það ekki koma Alþingi við. Enginn hefur heldur þorað að taka af festu og einurð á því óréttlæti sem viðgengist hefur í fiskveiðistjórnun frá upphafi slíkrar stjórnunar árið 1984.
Segja má að frá upphafi hafi framganga við stjórnun fiskveiða í öllum meginatriðum verið í hrópandi andstöðu við stjórnarskrá, virtar laga- og siðferðisreglur. Heildarhagsmunum þjóðarinnar hafi stöðugt verið fórnað fyrir sérhagsmuni lítils hluta þjóðarinnar. Flest bendir til að sú þróun sem verið hefur, hafi náð að festast í sessi vegna raunverulegs þekkingarskorts þingmanna á mikilvægi sjávarúrtvegs í fjármunaveltu, fjölbreytni atvinnulífs og verðmætasköpun fyrir flestar sjávarbyggðir landsins m. a. með úrvinnslu sjávaraflans.
Hér eru stór orð höfð uppi, en ekki af ástæðulausu. Ég er að skrá sögu sjávarútvegs á Íslandi frá lýðveldisstofnun til vorra daga. Sú saga er fjarri því að setja útvegsmenn okkar í einhvern dýrðarljóma. Því miður eiga þingmenn hvers tíma líka svo sannarlega sinn skerf af hörmungunum, því segja má að gegnum sneitt komi þeir fram eins og efnahagslegir óvitar sem ekki kunni heimilum sínum forráð í fjármálum. Raunveruleikinn sýndi þó annað um fjármálavit þeirra til eigin hagsbóta. Það vekur hins vegar spurningar um hvers vegna þeir virtust iðulega öllu slíku viti fyrrtir, í störfum sínum á Alþingi, þegar um var að ræða að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar, sem þeir þó tóku að sér að stjórna.
Við skulum grípa niður í söguna við upphaf áttunda áratugs síðustu aldar, þegar mikil umræða var um of stóran fiskiskipaflota hjá okkur og að erlendir „Ryksugutogarar“ væru að mati útvegsmanna, að eyðileggja fiskimið okkar. Sameiginlegt átak útvegsmanna og Alþingismanna þessa tíma var, samhliða útfærslu landhelginnar, að auka togaraflota landsmanna úr 20 gömlum síðutogurum, í 116 skuttogara á fáeinum árum. Samhliða útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur færðist erlendi veiðiflotinn burtu af helstu fiskimiðum landsmanna en nýir og öflugri íslenskir skuttogarar komu í staðinn.
Á fystu árum níunda áratugsins fór af stað umræða um að takmarka yrði aðgang hins alltof stóra íslenska fiskiskipastóls landsmanna, að fiskimiðum landsins, svo helstu nytjastofnum yrði ekki eytt með öllu. Bent var á reynslu frá öðrum löndum, þar á meðal frá Nýfundnalandi, þar sem togarafloti flestra landa heims, ofveiddi fiskistofna, með of miklu álagi. Engu var líkara en ráðamenn hér færu á taugum því skynsemi virtist hafa flúið Alþingishúsið og stjórnarráðið.
Á árinu 1983 urða ráðherraskipti í sjávarútvegsráðuneytinu hjá okkur. Steingrímur Hermannsson, sem verið hafði sjávarútvegsráðherra, lét af því starfi. Í ljósi þess að fyrir dyrum stóð að hefja takmörkun á aðgangi útvegsmanna að fiskveiðiauðlind þjóðarinnar, var augljóst að mikilvægt var að vanda vel til vals á nýjum sjávarútvegsráðherra. Í þeirri vandasömu stöðu brugðust Framsóknarmenn þjóðinni alvarlega, þegar þeir völdu son eins stærsta útgerðarmanns landsins til að taka við starfi sjávarútvegsráðherra. Mann sem á alla mælanlega vegu var vanhæfur til að taka að sér það embætti, við þær aðstæður sem uppi voru og fyrirhugaða framvindu við stjórnun fiskveiða hér við land.
Málið hefði svo sem ekki þurft að verða mjög alvarlegt ef Alþingi, og þá sérstaklega sjávarútvegsnefnd þess tíma, hefði gætt skyldu sinnar við þjóðina og framfylgt eðlilegri stjórnun löggjafans í svo mikilvægu tekjuöflunarmáli þjóðarbúsins. En því fór fjarri að Alþingi gætti hagsmuna þjóðarinnar. Alþingi framseldi hinum vanhæfa sjávarútvegsráðherra allt löggjafar-, skipulags- og framkvæmdavald við stjórnun fiskveiða, með því að segja aðeins, í þeim lögum sem Alþingi samþykkti, að sjávarútvegsráðherra ákvæði alla skapaða hluti með reglugerð eða ráðherra tilskipunum.
Þegar til þess er litið hvernig stjórnskipan okkar er uppbyggð, ætti þingmönnum að vera ljóst að Alþingi á með öllu að vera óheimilt að afhenda ráðherrum löggjafarvald sitt, því löggjafarvald má með engu móti verða til staðar hjá framkvæmdavaldinu, vegna þrískiptingar stjórnskipanar okkar.
Í 2. gr. stjórnarskrár er afar skýrt kveðið á um hvernig þrískipting valdsstjórnar okkar er háttað. Þar segir í fyrsta lagi að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarval. Í öðru lagi segir að Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fari með framkvæmdavalið. Og í þriðja lagi fari Dómendur með dómsvaldið.
Þegar þessi skipting valdssviða er skoðuð, kemur í ljós að öll þessi þrjú valdssvið eiga að vera sjálfstæð og aðskilin. Ekki er gert ráð fyrir beinni tengingu á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Forsetinn tengist að vísu báðum þessum valdsþáttum en hann er ekki beinn þátttakandi í daglegri stjórnun landsins, heldur á að vera sem eftirlitsaðili með eðlilegri starfsemi bæði löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Samkvæmt skýrum skilum milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, þá eiga ráðherrar ALLS EKKI að eiga þingsæti á löggjafarþingi, samhliða því að gegna embætti ráðherra. Það er brot á 2. gr. stjórnarskrár.
Af þeim sömu ástæðum á Alþingi að vera óheimilt að afhenda ráðherra löggjafarvald. Slíkt vald felst m. a. í því að ráðherra ákveði með einhliða ákvörðun sinni, mikilvæg framkvæmdaatriði við stjórnuna einhverra mikilvægra málefna þjóðfélagsins. Undir slíkan flokk fellur t. d. fiskveiðistjórnun, með hliðsjón af mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Stjórnun fiskveiða hefur því frá upphafi verið framkvæmd með ólögmætum hætti og Alþingi til mikils vansa að hafa ekki mikið fyrr gripið inn í og stöðvað hið alvarlega lögbrotaferli.
EN EIGA ÚTVEGSMENN KVÓTANN ???
Þegar maður les næsta óútskýranlegan kjánaskap eftir ýmsa lögspekinga sem þjóðin hefur vanist að megi taka mark á, þar sem þeir leitast við að færa rök fyrir eignarrétti útvegsmanna á aflaheimildum í fiskveiðilögsögu landsins, kemur glögglega í ljós að þeir eiga erfitt með að skrökva. Þess vegna er rökfærsla þeirra eins kjánaleg og raun ber vitni.
Ein helstu rök þeirra eru að við upphaf aflastýringar hafi verið ákveðið að EINUNGIS þau skip sem verið höfðu við veiðar árin 1981 – 1983 ættu ein rétt á allri úthlutun aflaheimilda og þau skip ein ættu rétt á að skipta á milli sín þeim heildarafla sem leyft væri að veiða á hverju ári. Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt því þessi regla var aldrei sett í lög. Sú regla sem látin var hafa löggildingu, var hin víðtæka samþykkt á Fiskiþingi ársins 1983, þar sem fram kom í 4. tölulið lögskýringarfylgiskjals með lögunum, að hverju sinni skildi veiðireynsla síðustu þriggja ára, fyrir úthlutun, gilda sem hlutfallstala skips við skiptingu heildarafla ársins á milli veiðiskipa. Þetta sveikst hinn vanhæfi sjávarútvegsráðherra þess tíma um að framkvæma og setti reglu sem stangaðist á við lögskipaða ákvörðun Alþingis.
Næstu rök hafa verið þau að útvegsmenn séu búnir að KAUPA aflaheimildir sínar dýru verði og eigi því stjórnarskrárvarinn eignarrétt til þeirra. Sannleikurinn í þessu máli er sá að útvegsmenn hafa keypt, á uppsprengdu veðri, aflaheimildir af ÖÐRUM útvegsmönnum, ýmist úthlutað aflamarks (kvóta) ársins, en hins vegar það sem útvegsmenn hafa kallað „Aflahlutdeild“.
Hugtakið „Aflahlutdeild“ hefur aldrei verið skilgreint í lögum. Lítur helst út fyrir að útvegsmenn séu þar að skáka í skjóli þeirra ólögmætu sérréttinda sem þeir telja sig hafa á grundvelli þess að þeir einir sem voru við veiðar árin 1981 – 1983, eigi allan rétt til úthlutunar aflamarks hverju sinni. Þann rétt sem þeir fengu við skiptingu heildarafla fyrsta ársins, 1984, kalla þeir „Aflahlutdeild“. Hafa þeir haldið því fram að sú hlutdeild eigi að vera óbreytt milli ára, einskonar fastar aflaheimildir. Það er ein þeirra röksemda sem þeir beita í áróðri sínum fyrir því að þeir eigi rétt á sama hlutfalli heildarafla á hverju ári, óháð veiðireynslu undangenginna þriggja ára.
Þessi túlkun stenst hvorki lög né stjórnarskrá. Merkilegt er að ALLIR sjávarútvegsráðherrar, frá árinu 1984, hafi vikið hagsmunum þjóðarinnar til hliðar, til að þjóna sérhagsmunum tiltekinna útvegsmanna. Þeim hefur liðist að taka eina helstu gjaldeyrisauðlind þjóðarinnar í gíslingu til eigin tekjuöflunar. Þeim hefur verið liðið að selja úthlutaðan nýtingarrétt til fiskveiða, þó úthlutun fylgi hvorki eignarréttur né varanlegt forræði.
ENGINN útvegsmaður hefur lögformlega heimild til að SELJA aflaheimild. ENGINN útvegsmaður hefur með lögformlegum hætti yfirráð eða eignarheimild yfir svonefndri „Aflahlutdeild“, sem óbreytt skuli vera á mili ára. Margir þættir koma til að slíkur óbreytanleiki er ekki mögulegur í núverandi kerfi.
Má þar t. d. Nefna margháttuð inngrip sem ráðherra eru heimil samkvæmt lögunum. Þá má nefna heimildir til veiða umfram úthlutaðar aflaheimildir ársins. Slík umframveiði kemur ekki fram hjá öllum skipum, skipt eftir „aflahlutdeild“, heldur skekkir hlutdeild þeirra skipa sem veiða umfram heimildir. Margir fleiri þættir koma til sem gera ómögulegt að halda „aflahlutdeild“ óbreyttri milli ára.
Má þar t. d. nefna að ef „aflahlutdeild“ skal undanbragðalaust vera óbreytt milli ára, þá getur enginn seld „aflahlutdeild“ frá skipi, því honum væri óheimilt að láta hana frá skipinu, þar sem lög segji fyrir um að „aflahlutdeildin“ skuli vera óbreytt milli ára. Enginn heimild væri þá til að selja aflahlutdeild því lögskipað væri að hlutdeild skips væri óbreeytt milli ára og engar undanþágur frá þeirri reglu.
Sama ætti í raun við um það skip sem keypti „aflahlutdeildina“. Það skip væri fyrir með „aflahlutdeild“ og sú aflahlutdeild skal vera óbreytt milli ára. Engin heimild er í lögum sem heimili að auka hlutdeild einstakra skipa á kostnað allra hinna. Skipið gæti því ekki fengið löglega heimild til að bæta við sig hinni keyptu „aflahlutdeild“, þar sem hin keypta aflahlutdeild væri ekki byggð á eigin veiðireynslu. Engin heimild er í lögum um stjórn fiskveiða sem heimili útgerðum að kaupa aflahlutdeild frá öðrum útgerðum.
Hér hefur verið bent á nokkur þeirra fjölmörgu atriða sem sýna að núverandi framkvæmd fiskveiðistjórnunar stenst engar venjulegar lagaforsendur. Tæmandi upptalning allra þeirra þátta er of viðamikið fyrir svona grein. Það virðist líka vera nokkuð sama hvort sýnt sé fram á fullkomið ólögmæti framkvæmdar við fiskveiðistjórnun. Ef svarað er, þá er þrætt fyrir að um lögbrot sé að ræða og þolendur lögbrota þannig þvingaðir til málaferla fyrir dómi, vilji þeir leita réttar síns. Það þýðir í raun að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið stilla sér upp við hliðina á þeim sem arðræna samfélag okkar, í stað þess að láta refsa þeim sem brjóta grundvallarlög og reglur samfélagsins.