- gr. Stjórnvöld.
Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
Athyglisverð setning í ljósi þess að í Stjórnarskrá og lögum um stjórnarráð Íslands eru afar skír ákvæði um að valdssvið ráðherra æðsta vald yfir sínum málaflokki. Í 15. gr. stjórnarskrár segir eftirfarandi:
„15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.“
Í lögum um stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 segir svo í II kafla,
„Um skipun ráðherra og verkaskiptingu á milli þeirra.“
Þar segir svo í 1. og 2. málsgr. 4. gr. laganna:
„4. gr. Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum forsetaúrskurðar, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveðinn er upp samkvæmt tillögu forsætisráðherra.
Við skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta skv. 1. mgr. skal þess jafnan gætt, að teknu tilliti til skiptingar Stjórnarráðsins í ráðuneyti skv. 2. gr., að eðlislík stjórnarmálefni heyri undir sama ráðuneyti.“
Í 2. gr. segir svo um skiptingu í ráðuneyti:
„2. gr. Stjórnarráð Íslands skiptist í ráðuneyti. Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins hvert á sínu málefnasviði. Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Tillagan skal lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem komi þegar til umræðu og afgreiðslu áður en forsetaúrskurður er gefinn út.
Stjórnarráð Íslands hefur aðsetur í Reykjavík.“
Eins og þarna liggur ljóst fyrir ER sjávarútvegsráðherra æðsta stjórnvald í þeim málaflokki. Hins vegar gæti þarna verið tilraun til að lauma inn ákvæði sem gæti valdið togstreitu eða deilum. Eins og sést á fyrstu setningu 2. gr. segir að: Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Þar sem einungis er sagt RÁÐHERRA, en ekki sjávarútvegsráðherra. Gæti þarna verið á ferð tilraun til að sniðganga stjórnskipan, með því að taka málaflokkinn af sjávarútvegsráðherra og setja annan ráðherra yfir tiltekin mál, líkt og reynt var við Jón Bjarnason á síðasta hausti. Þar sem lögin segja einungis RÁÐHERRA, gæti slík sniðganga verið reynd aftur í skjóli þessa orðalags.
Í 2. mgr. 2. greinar segir svo:
Fiskistofa annast eftirlit samkvæmt lögum þessum og daglega stjórnsýslu.
Eftir orðanna hljóðan annast Fiskistofa eftirlit samkvæmt lögum þessum, en síðan er engin skýring á því eftir hverju hin daglega stjórnsýsla á að fara. Ég hefði kosið að orða þessa setningu á eftirfarandi hátt:
Fiskistofa annast eftirlit og daglega stjórnsýslu samkvæmt lögum þessum.
- málsgr. 2. gr. frumvarpsins er eftirfarandi:
„Hafrannsóknastofnunin er til ráðgjafar við framkvæmd laga þessara samkvæmt lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.“
Þetta vita allir sem til þekkja að þetta er ekki rétt. Hafrannsóknarstofnun er ekki til ráðgjafar um framkvæmd laganna. Hafrannsóknarstofnun framkvæmir þær rannsóknir sem ákvörðun ráðherrans um heildarafla er byggð á. Eftir að ráðherra hefur tekið ákvörðun um heildarafla, hefur Hafró engin afskipti af framkvæmdinni. Sú ábyrgð hvílir á Fiskistofu, eins og fram kemur hér að framan. Ég mundi því gera tillögu um að 3. mgr. 2. gr. orðist svo:
Samkvæmt lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, annast Hafrannsóknastofnun allar rannsóknir sem ákvörðun ráðherra um heildarafla er byggð á. Við framkvæmd laga þessara er Hafrannsóknarstofnun einnig til ráðgjafar, í þeim atriðum er lúta að fiskifræðilegum þáttum.