Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Umræðan um stjórn fiskveiða hefur verið í skötulíki undanfarin ár. Flestir þeirra sem hæst láta virðast gera sér litla eða enga grein fyrir því að kvótakerfinu var komið á fyrir 25 árum til þess að auka arðsemi í íslenskum sjávarútvegi og beita skynsamlegri nýtingu til að vernda ofveidda fiskistofna. Það vill gleymast, að fæstir útvegsmenn voru hlynntir kvótakerfinu á sínum tíma. Með þessum hugmyndum þótti þeim vegið að frelsi sínu til fiskveiða. Í dag deilir hins vegar enginn ábyrgur útgerðarmaður um ágæti þessa fyrirkomulags sem notað er við stjórn fiskveiða hér á landi.

Hvað lá að baki?

En hvernig var tilurð kvótakerfisins og hvað lá þar að baki? Upphaf umræðunnar má tengja við útkomu hinnar svokölluðu ,,svörtu skýrslu“ Hafrannsóknarstofnunar árið 1975. Þar sagði að útlit væri fyrir verulegan viðkomubrest ef ekki yrði gripið til nauðsynlegra ráðstafana. Í framhaldi var ,,skrapdagakerfinu“ komið á 1977. Þar mátti hlutfall þorsks hjá togurum ekki fara upp fyrir ákveðið hlutfall af afla tiltekna daga á ári.

Að öðru leyti voru veiðar frjálsar og þrátt fyrir tillögu Hafró um 275 þúsund tonn þetta ár var veiðin 340 þúsund tonn. Sóknarþungi jókst stórum og náði þorskveiðin hámarki árið 1981 þegar veidd voru tæp 470 þúsund tonn. Þrátt fyrir þessa miklu veiði fór afkoma útgerðar stöðugt versandi. Á annað hundrað skuttogarar bættust við flotann á þessu tímabili sem hluti af stefnu stjórnvalda í atvinnu- og byggðamálum.

Hugmyndinni illa tekið í fyrstu

Augljóst var að frjáls aðgangur að auðlindinni skilaði ekki þeim markmiðum sem stjórnvöld settu sér við nýtingu hennar. Þannig benti Jakob Jakobsson fiskifræðingur t.d. á gríðarlega sóun við síldveiðar árið 1979, þar sem 170 skip veiddu 35 þúsund tonna ársafla. Tíundi hluti þess flota hefði staðið undir veiðunum.

Austfirðingar hreyfðu fyrst við hugmyndum um kvótakerfi á Fiskiþingi árið 1978. Þeim var illa tekið af útvegsmönnum, sérstaklega Vestfirðingum, sem töldu frjálsar veiðar sér í hag vegna nálægðar við fiskimiðin. Austfirðingar reyndu á ný árið eftir en allt fór á sama veg. Á Fiskiþingi 1981 mátti hins vegar greina vaxandi áhuga á kvótasetningu á þorski. Umræðan var orðin upplýstari og menn gerðu sér grein fyrir að stjórnlaus veiði á endurnýjanlegri auðlind ógnaði jafnt fiskistofnum sem afkomu útgerðarinnar.

Kvótakerfið verður að lögum

Fram að þessum tíma hafði svokölluð millifærsluleið verið farin í stjórnun sjávarútvegs. Flókið sjóðakerfi var notað sem tæki til að taka fjármuni af heildinni og færa öðrum. Heildarfjármunir voru teknir frá þjóðinni með launalækkun í gegnum gengisfellingar. En til að gera langa sögu stutta fór svo að mælt var fyrir frumvarpi um kvóta í desember 1983 og það varð að lögum árið 1984.

Kvótakefið var samþykkt til eins árs í senn þar til 1988 þegar það var fest í sessi. Fljótlega kom í ljós að án framsalsréttar á aflaheimildum væri takmarkaður ávinningur af kvótakerfinu. Framsal var lögfest 1988. Ljóst var að nauðsynlegt var að fækka skipum og draga úr sóknarþunga til að auka arðsemi veiða og án framsalsheimilda væri það borin von.

Einkaframtak í stað ríkisafskipta

Stjórnmálaflokkar voru klofnir í afstöðu sinni til málsins en margir álitsgjafar voru atkvæðamiklir í umræðunni. Í henni kristölluðust meginstraumar í hugmyndum um kvótakerfi; hvort ríkið ætti að útdeila fiskveiðiheimildum eða hvort nýtingarréttur yrði færður til útgerðarinnar og hún látin bera ábyrgð á eigin afkomu. Sú leið sem farin var – að nota reiknireglur til að skipta aflaheimildum niður á skip – var því í anda einkaframtaks í stað ríkisafskipta.

Kvótanum þröngvað upp á útvegsmenn

Það er nokkuð ljóst að kvótanum var þröngvað upp á útvegsmenn á sínum tíma þar sem frjáls veiði án afskipta ríkisins hugnaðist þeim betur. Sú aðferð að færa nýtingarréttinn til útgerða, byggðan á aflareynslu, getur varla talist vafasöm aðgerð. Í ljósi fjárhagsstöðu útgerðarinnar á þessum tíma var ekki var borð fyrir báru til að greiða háar upphæðir fyrir aflaheimildir til ríkisins. Einnig verður að líta til þess að aflakvóti var einskis virði á þessum tíma enda tapið botnlaust hjá útgerðinni og kvótasetningin því forsenda arðsemi.

Ríkisafskipti með pólitískri útdeilingu gæða eins og aflaheimilda er ekki líkleg til að skila hámarks arðsemi af fiskveiðum sem hlýtur að vera meginkrafa íslensku þjóðarinnar. Skipting þess fiskveiðiarðs með réttlátum hætti er hinsvegar pólitískt viðfangsefni hverju sinni.

Gunnar Þórðarson. Höfundur er fyrrverandi formaður Sjómannafélags Ísafjarðar.

Heimild : bb.is

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!