Jón Gunnar Björgvinsson sendi þennan pistil.
Hagkvæmni.
Því er haldið fram að stjórnkerfi fiskveiða á Íslandi sé fyrirmynd annarra þjóða. Alþjóða hafrannsóknaráðið fylgist með vernd og uppbyggingu fiskistofna hér við land og vottar það að veiðar séu sjálfbærar og standist alþjóðlega viðurkennd varúðarsjónarmið. Stuðst er við aflareglu sem kveður á um að aðeins skuli veidd 20% af viðmiðunarstofni þorsks á hverju ári. Það er látið að því liggja að fyrir því séu fiskifræðileg rök, að þetta snúist um afkomu þorskstofnsins. En því fer fjarri. 20% aflaregla miðast við að hámarka arðsemi af veiðunum sem í okkar tilfelli hámarkar hag handhafa aflaheimilda. Þetta miðast ekki við að hámarka arð þjóðfélagsins. Enda hafa engar aðrar þjóðir tekið upp fiskveiðistjórnarkerfi að okkar fyrirmynd.
Mörg stærri sjávarútvegsfyrirtæki eiga fisksölufyrirtæki erlendis. Þessi erlendu fyrirtæki kaupa afurðirnar hér heim á fremur lágu verð og selja svo erlendis með miklum hagnaði. Útgerðirnar fá aflaheimildum úthlutað fyrir smáaura frá ríkinu, kaupa aflann af sínum skipum á hluta þess verðs sem fengist fyrir hann á markaði og greiða slík smánarlaun til fiskverkafólks að jafnvel í atvinnuleysinu fást Íslendingar ekki til starfa. Þessi lági tilkostnaður og mikla arðsemi skýrir hvers vegna útvegsmenn leggja höfuð áherslu á að hafa allt á sömu hendi frá veiðum til endanlegrar sölu erlendis.
Vegna þess ástands sem nú ríkir njóta fyrirtækin undanþágu frá lögum um gjaldeyrisviðskipti. Þrátt fyrir að búa við þessi góðu skilyrði þá, vegna lágs verðs á afurðum, er afkoman svo slök að þessi fyrirtæki eru tekin silkihönskum í bankakerfinu. LÍÚ segir að sjávarútvegurinn þurfi u.þ.b. 100 milljarða afskriftir. Varla er það ofáætlað.
Kvótakerfinu var komið á að pöntun útgerðarmanna. Á fiskiþingi haustið 1983 voru lögð drög að kerfinu. Frumvarp til laga, í anda samþykkta fiskiþings, var lagt fram 9.12.1983 og varð að lögum 20.12.1983. Engar breytingar voru gerðar á frumvarpi Halldórs Ásgrímssonar í meðförum þingsins.
Langstærsti hluti aflaheimilda er í höndum aðila sem fengu kvóta úthlutað 1984. Það að yfir 80% kvóta sé nú í höndum annarra aðila en fengu hann í upphafi skýrist aðallega af sameiningum fyrirtækja og breytingum á rekstraformi (kennitölubreytingum). Að auki hafa oft á tíðum önnur sjónarmið en hagkvæmni í útgerð ráðið ákvörðunum manna um að auka kvótaeign sína (Jón Steinsson hefur td. útskýrt þetta vel).
Því er iðulega haldið fram að með auknum veiðum muni verð á afurðum snarfalla. Það er að sjálfsögðu fráleit fullyrðing. Meðalverð á mörkuðum hér heima myndi vissulega lækka þar sem við þyrftum að fara að selja afurðir á markaði sem borga ekki eins vel. En ólíklegt er að þeir kaupendur erlendis sem hæsta verð borga muni greiða minna þrátt fyrir aukna veiði. Aukin veiði á Íslandi er sem dropi í hafið á framboði fisks á heimsmarkaði.
Með samningaleiðinni er verið að festa í sessi forréttindi örfárra og um leið mannréttindabrot á öðrum. Jafnframt er verið að tryggja að bankar og kröfuhafar fái til sín megin hluta arðsins sem fiskurinn skapar. Því miður virðist það vera á öllum sviðum sem ríkisstjórnin tekur hagsmuni banka og fjármagnseigenda framyfir hagsmuni almennings.
Fiskvernd og vísindi.
Til þess að magnstýra fiskveiðum (nota kvótakerfi) af einhverju viti þarf augljóslega að vita þrennt. Stofnstærð, vöxt og afföll. Ekkert af þessu er þekkt. Stofnstærðin er ágiskuð út frá vísitölu sem fundin er út í togararalli og sett inní ósannaða jöfnu sem ávallt er kölluð “stofnstærðarlíkan” því það hljómar svo miklu betur. Inn í þessa jöfnu er svo settur náttúrulegur dauði sem er gefin stærð auk annarra ágiskaðra og gefinna stærða. Ekkert tillit er tekið til vaxtahraða enda er útilokað að vita hver vöxturinn verður næsta árið þó svo nokkuð auðvelt sé að finna hann út aftur í tímann (en það er ekki endilega það sem máli skiptir)
Skip eru á stöðugum flótta undan þorski og svo hefur verið síðan ég hóf sjómennsku 1991. það segir okkur að Hafró er að mæla skakkt. Ef aflasamsetning er ekki í samræmi við útgefin kvóta er augljóst að kolrangt er mælt. Væri einhver vilji til þess að sannreyna nákvæmni mælinga Hafró væri það vandalítið m.a. með því að líta til raunverulegrar aflasamsetningar og svo hversu miklum kvóta er úthlutað í hverjum stofni (má líkja þessu við gross error check). Fiskimenn ættu ekki stöðugt að þurfa að flýja þorskgengd eða að standa í brottkasti og framhjálöndun.
Að auki er ekki vitað hversu mikill raunverulegur ávinningur er að því að byggja upp mjög stóran þorskstofn hér við land þar sem útilokað er að meta áhrif mjög stórs þorskstofns á viðgang annarra stofna svo sem, ýsu, ufsa, síldar og rækju.
Nú á nýhöfnu fiskveiðiári eru þegar farnar að berast sögur af útgerðum sem eru farnar að segja upp sínum starfsmönnum. Á atvinnuleysið er ekki bætandi. Þetta stafar fyrst og fremst af stórkostlegum niðurskurði á kvóta einu sinni enn. Ýsukvótinn hefur verið skorinn niður á örfáum árum um meira en helming. Það skorti ekkert á að Hafró hældi sér fyrir góðan árangur í uppbyggingu ýsunnar á árunum 2003-2007. En þeir virðast ekki telja það sína sök að aflinn hrynji jafn skart aftur. Sannarlega má segja að stækkun ýsustofnsins og svo hrun hans afsanni allar kenningar Hafró um að það þurfi að byggja upp stóran hrygningarstofn til þess að tryggja góða nýliðun. Í ýsunni leiddi risastór stofn til risa falls í stofninum.
Í kringum 1970 ruddust fiskifræðingar Hafró fram á sjónarsviðið og lofuðu stjórnmálamönnum mun betri og jafnari afla yrði þeirra ráðgjöf fylgt. Á þeim tíma var árlegur meðalafli um 440.000 tonn. Áætlunin snérist um að friða 3 ára fisk og leyfa honum að vaxa þar til hann yrði 4 ára og eldri. Skiljanlega féllu stjórnmálamenn fyrir slíku kostaboði. Uppbyggingin hófst árið 1972 þegar erlendum togurum var komið út fyrir 50 mílur, möskvastærð í botnvörpum var aukinn og jafnframt var gripið til skyndilokanna til friðunar á smáfiski. Árið 1976 varð annar áfangasigur í þessari baráttu með tilkomu 200 mílna lögsögu og skrapdagakerfis og svo loks árið 1983 þegar kvótalögin voru samþykkt. Eðlilegt er að spyrja um ástand þorskins á þessum tíma. Var þörf á þessari friðun? Því var nú þannig farið að í lok hinnar gríðarmiklu “rányrkju” á árunum 1950 til 1972 var stofninn í betra ástandi til að viðhalda sér en hann hefur vanalega verið. 1973 árgangurinn er talinn vera sá stærsti nokkurn tímann og sá síðasti af stóru árgöngunum til að koma að fullum þunga inní veiðina. 1976 árgangurinn var líka talinn gríðarlega stór og er jafnframt fyrsti stóri árgangurinn sem naut friðunar. Hann koma aldrei fram í veiðinni nema sem meðalárgangur og eftirá var ákveðið að hann hafi aldrei verið sérstaklega stór. 1981 og 1982 voru metaflaár á Íslandi, afli á vertíð suðvestanlands var um 115.000-135.000 tonn ársaflinn fór í 460.000 tonn. Aflabrögð voru mun síðri árið 1983 m.a. vegna friðunaraðgerða og ætisskorts. Það var talið til marks um að stofninn væri kominn að fótum fram og því yrði að bregðast skjótt við. Í kjölfarið komu útgerðarmenn kvótakerfinu á.
Eftir þessa stórkostlegu friðun og uppbyggingu í áratugi var kvótinn kominn niður í 130.000 tonn árið 2007. Enn er ekki spurt hvort forsendurnar séu réttar eða rangar. Í dag eftir að kvótinn hefur verið aukinn í 160.000 tonn erum við aðeins 400.000 tonn frá settu marki!
Nýting náttúruauðlinda.
Ofveiði er í raun óskilgreint hugtak og ekki er vitað um nokkurn fiskistofn sem hefur hrunið sökum veiða. Á það jafnt við um þorskinn við Nýfundnaland 1992, síldina við Ísland 1968 eða fiskistofna við strendur Evrópu í dag. Afar fátt bendir til að veiðar hafi þar haft afgerandi áhrif. T.d. er algjörlega útilokað að veiðar eigi sökina á lægri sjávarhita eins og raunin var við Nýfundnaland. Enn er mönnum samt tíðrætt um ofveiði og yfirleitt fylgir tali um ofveiði sú ályktun að aðrir en “ég” megi alls ekki veiða fisk.
Svo virðist sem aflamarkskerfinu hafi verið komið á sökum fákunnáttu eða þá með blekkingum. Sá ráðherra sem innleiddi kerfið kom með því stórkostlegum auðæfum í hendur fjölskyldu sinnar og braut um leið mannréttindi á þegnum landsins. Þessu má trúlega aðeins líkja við “Teapot dome” hneykslið í Bandaríkjunum á 3. áratug síðustu aldar. Munurinn er hins vegar sá að Albert Fall innanríkisráðherra Bandaríkjanna fór í fangelsi (en okkar maður fékk banka og fínustu eftirlaun).
Nýting orkuauðlinda og fiskveiðar eru gjörólíkar. Við fiskveiðar skapast umfram arður vegna nýtingar auðlindarinnar á sama tíma og ekki er til fjármagn til þess að virkja orkuauðlindir. Því er með öllu órökrétt að ætla sér að nota sömu reglur við úthlutun réttinda til nýtingar á þessum auðlindum. Einnig eru þessar auðlindir ósambærilegar hvað það varðar að vel er hægt að selja fiskiskip og búnað milli landa eða landshluta breytist forsendur í rekstri.
Því miður virðist Ísland vera undir sömu sök selt og fjöldi annarra þjóða sem ríkar eru að náttúruauðlindum. Mannréttindi eru lítils virt í þessum ríkjum, hagsmunaöfl véla með auðlindir og misskipting og spilling er viðvarandi. Þó ekki þurfi að leita lengra en til Noregs til að sjá hvernig ríkar náttúruauðlindir séu nýttar þjóðinni til hagsbóta þá hafa íslensk stjórnvöld leitað lengra að fyrirmynd, jafnvel allt suður í Persaflóa.