Ræða sem ég, Erling Ingvason, flutti á opnum fundi Dögunar um sjávarútvegsmál sl. fimmtudagskvöld.
Mér vannst ekki tími til að flytja hana alla en hér er hún óstytt og ekki er það falleg lesning:
Nú er það þannig að enginn getur hafið útgerð á Íslandi nema kaupa eða leigja kvóta á uppsprengdu verði af lénsherra sem situr á skrifstofu og hefur kannski aldrei stigið á skipsfjöl. Leiguliðarnir eru einhverjir strákar sem ná varla að vinna fyrir sér þó þeir þræli og þræli, nákvæmlega eins og hjúin forðum, munurinn er helst sá að í stað þess að flýja upp til heiða og síðar Amríku, þá flýja þeir núna heim í gamla föðurlandið; Noreg, Noreg, sem þarf kannski allra landa minnst á þeim að halda en þiggur þá samt með þökkum. Það er hins vegar okkur sem blæðir, það erum við sem megum ekki við því að missa þá og þeirra dug, frumkvæði og vinnufúsu hendur.
Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty hefur skrifað bók sem heitir Fjármagn á 21.öldinni og sýnir fram á það, stutt tölfræði, að misskipting er að aukast hröðum skrefum og það er að eiga sér stað þróun þar sem skipting auðsins líkist æ meir því sem gerðist í lénskerfum miðalda, við Íslendingar styttum okkur hins vegar leið að þessu marki í sjávarútvegi og tókum bara lénskerfið upp með beinum hætti og til þess var “lýðræðið” notað, þurfti ekki neinar blóðsúthellingar til. Þetta hlýtur að vera einhverskonar heimsmet í aumingjaskap og fábjánahætti okkar Íslendinga en þá er þess að minnast að til þess að ná þessu marki hefur öllum brögðum í bókinni verið beitt, rauði þráðurinn er samt þöggun, þöggun og Berufsverbot, kallað atvinnubann á íslensku, auk massifs áróðurs og til þess er margur sótrafturinn á sjó dreginn, nú síðast Mogginn sjálfur, bara í heilu lagi!
Þessi djöfulskapur gerir það að verkum að nánast enginn sjómaður þorir að láta heyra í sér eða sjá sig á svona fundum, það þarf mikið hugrekki einstakra sjómanna til en samtök sjómanna, hvar eru þau? Þau virðast vera sofnuð svefninum langa og sjómenn fljóta sofandi að feigðarósi í sínum kjaramálum, sjómönnum fækkar stöðugt, þeir eru samningslausir svo arum skiptir. Þeirra bíður ekki fögur framtíðarsýn ef þeir ætla að fela sig í skugganum, í draumalandi hugmyndafræðinga kvótakerfisins, Nýja Sjálandi, kom í ljós að áhafnir skipa sem voru þar að veiðum voru ekki á hlut, voru ekki einu sinni á launum; þetta reyndust hreinlega vera indónesískir og filippeyskir þrælar á galeiðum kvótagreifanna. Eigum við eftir að sjá þetta á Íslandsmiðum? Þetta er ekki ómálefnaleg spurning.
Kvótinn var þetta fræga „fé án hirðis“ alveg eins og í sparisjóðunum og það vaknaði með frjálsa framsalinu, var dautt fé samkvæmt kenningu nýfrjálshyggjunnar fram að því en svo vaknaði það og var eftir það til margra hluta nytsamlegt, minnst af því tengdist sjávarútvegi. Bankar og bílaumboð, fótboltalið og hver veit hvað? Ein frum-forsenda hugmyndafræðinga kvótakerfisins fyrir því að kerfið virki fullkomlega, ef maður skoðar skrif þeirra frá því fyrir aldarfjórðungi, er frjáls markaður með aflaheimildir. Þar er nú eitthvað annað uppi á tengingnum, ef einhversstaðar er markaðsmisnotkun, þá er það í verslun með aflaheimildir og um hana virðist ekki vera neitt regluverk, hún er hvorki sett undir Fjármáleftirlitið né Samkeppnisstofnun, er bara til hliðar við lög, eins og Kvótakerfið sjálft.
Þá er það ekkert annað en hlægilegt að lesa fabúleringar þeirra um það hvernig fiskistofnarnir, sérstaklega þorskstofninn, muni upp byggjast í þessu kerfi, sagan hefur sýnt að ekkert er fjær sanni.
Kvótakerfið er einokunarkerfi
Einokunarkerfi hafa tilhneigingu til þess að vera hagkvæm af því að þau eru einokunarkerfi.
Það er nánast sama í hvaða atvinnugrein við myndum setja upp einokunarkerfi, það yrði bullandi arðsemi í þeirri grein, það þýðir ekki að það sé réttlætanlegt af siðferðilegum og samkeppnislegum sjónarmiðum enda liggur fyrir álit Mannréttindanefndar SÞ um að þetta kerfi brjóti mannréttindi á landsmönnum, Alþingi kýs hins vegar að leiða það hjá sér. Það gæti reyndar legið í því að Kvótakerfið er keyrt einhvern veginn til hliðar og á skjön við lögin, eins og áður er sagt, af embættismönnum og möppudýrum með reglugerðum og tilskipunum.
Fiskiskapur og ferðaþjónusta
Ferðamenn vilja sjá strandveiðimenningu, ekki söfn um strandveiðimenningu , þetta geta þeir vitnað um sem stunda strandveiðina, það er varla þverfótað fyrir túrhestum þegar verið er að landa.
Við þurfum kannski að fara að hugsa sjávaútveginn sem stoðgrein við ferðaþjónustuna, núna þegar ferðaþjónustan hefur tekið við af sjávarútveginum sem stærsta útflutningsgreinin, sú sem skapar okkur mestar gjaldeyristekjur. Þannig væri hægt að færa aftur lífsbjörgina heim í hérað.
Strandveiðimenningin er líka menningin okkar, ekkert síður en sveitamenningin, það má ekki gleyma því. Þessi helstefna í sjávarútvegi er því bein árás á menningu Íslendinga.
Kvótakerfið og lýðræðið
Kvótakerfið og Frjálsa framsalið voru ekki kosningamál, hvorki í kosningunum 1983 né heldur 1987 og heldur ekki framlenging þess um aldur og ævi ens og „nýja kvótafumvarp“ núverandi ríkisstjórnar gerir ráð fyrir. Kvótinn og Frjálsa framsalið voru keyrð í gegnum Alþingi með hrossakaupum og þjösnaskap á síðustu dögum þess eins og prófessor Svanur Kristjánsson hefur rakið ágætlega í greinum sínum í tímaritinu Skírni. Þær ættu allir að lesa sem áhuga hafa á að skilja hvernig við enduðum í þessari stöðu. Hlutur Halldórs Ásgrímssonar í þeirri sögu er til skammar, þar fór fram maður með eigin hagsmuni og sinnar fjölskyldu af fullri hörku og síðan hafa byggðir eyðst og fólk vaknað víða um land á einhverjum gráum mánudagsmorgnum, ekki aðeins atvinnulaust, heldur líka eignalaust og í Vistarbandi. Það var minnihluti þingmanna sem studdi þetta afdrifaríka frumvarp þ.e. Frjálsa framsalið, 31 kaus með en 32 voru á móti, sátu hjá eða létu ekki sjá sig.
Kvótakerfið eða afnám þess öllu heldur var hins vegar kosningamál í kosningunum 2009 og þeir flokkar sem höfðu það á stefnuskrá sinni, SF og VG höfðu sigur og settu líka sk. Fyrningarleið í stjórnarsáttmála. Fyrningarleiðin rakst hins vegar á vegg, hvaða vegg? Maður spyr sig, stjórn með traustan meirihluta kom málinu ekki fram og það er áleitin spurning hverjir það voru sem sviku lit. Var það etv. sama fólk og felldi Nýju stjórnarskrána? Í því sambandi má minna á að við kusum í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur Stjórnlagaráðs árið 2012 og þar kaus yfirgnæfandi meirihluti með ákvæði um auðlindir í þjóðareign.
Forsetinn hefur sagt þetta mál henta vel í þjóðaratkvæðagreiðslu, er töfin á „nýja kvótafrumvarpinu etv. vegna þess að verið er að bíða eftir nýjum forseta?
Er kannski bara búið að afnema lýðræðið alfarið í þessum málaflokki?
Það er svosem ekki ný saga að frændhygli og Helmingaskipti séu reglan á Íslandi, það hefur verið reglan frá 1944 og er svo enn, þetta er bara á svo stórum skala að manni blöskrar, það er látið eins og landauðn í mörgum sjávarbyggðum sé bara eðlilegur fórnarkostnaður, þvílík mannfyrirlitning!
Hagsmunagæslan
Hagsmunagæsla LÍÚ, nú SFS er svo grimmileg og ósvífin að hér verður engu breytt án ainbeitts vilja og átaka.
Allt þetta kvótamál á sér einn skurðpunkt þar sem kerfið opinberar sig en það er síldin í Kolgrafarfirði: Bátar voru að umhverfivænum og hagkvæmum veiðum en floti LÍÚ mátti bíða fyrir utan og komst ekki í síldina þá var bara hringt í Hafró og Gæsluna, bátarnir reknir út og sprengjusveitin send á staðinn, það eina sem kom út úr því er að nú er öll síldin heyrnarlaus. Með réttu ættu þeir sem komu að ákvarðanatöku í þessu máli að ganga með hauspoka af skömm.
Háskólasamfélagið
Eins og áður sagði er margt af því sem ritað var af hugmyndafræðingum kerfisins, þegar það var tekið upp beinlínis hlægilegt, það er svo langt frá raunveruleikanum eins og hann hefur birst okkur.
Það eru örfáir innan háskólasamfélagsins sem hafa haft hugrekki til þess að tala á móti þessu kerfi, það er sama þöggunin þar.
Ef það er, þó ekki nema 5% möguleiki á því að við séum að horfa á annað eins fyrirbæri eins og staurblindu og meðvirkni háskólasamfélagsins í aðdraganda Hrunsins, ætti að gera á því úttekt þar sem þetta sama háskólasamfélag kemur hvergi nærri.
Norðmenn og Rússar fóru ekki að tillögum fiskifræðinga sem aðhyllast sama skóla og Hafró og uppskera nú milljón tonna þorskveiði á ári úr Barentshafi en við erum föst í því að veiða 1/3-1/2 þess þorsks sem þessu ólukkans kerfi var ætlað að stórauka.
Störfum í sjávarútvegi hefur fækkað um 30% á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er síðan kerfið var tekið upp, það er ekkert í lögunum sem segir að stefna skuli að fækkun starfa heldur þvert á móti en í fyrstu grein laganna segir m.a:
„…Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hakvæmri nýtingu þeirra (fiskistofnanna, innsk.mitt) og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu…“
Störfunum fækkar og þeim mun halda áfram að fækka að óbreyttu með tækniframförum og aukinni sjálfvirkni, það er engin ástæða til að ætla að breytingarnar verði minni á næstu 30 árum en á þeim síðustu.
Það er því ekki ofsögum sagt að að kerfið er í andstöðu við anda og markmið laganna, því er löngu tímabært að henda því út í hafsauga.
Erling Invason, Akureyri.