11186412_10153729776370828_3231003_n
Olafur Sigurðsson Skrifar
Þorvaldur Gylfason í Fréttablaðinu: „Þegar Alþingi hafði legið yfir stjórnarskrárfrumvarpinu í sjö til átta mánuði 2011-2012 kvaddi það stjórnlagaráðsmenn saman til aukafundar til að fá svör við nokkrum spurningum, m.a. þeirri spurningu hvort breyta mætti orðunum „fullt gjald“ í „sanngjarnt gjald“. Fundurinn svaraði spurningunni neitandi afdráttarlaust og einum rómi með þeim rökum að í eignarréttarákvæði frumvarpsins, sem er óbreytt frá 1944, er kveðið á um að „fullt verð“ skuli koma fyrir eignarnám. Til að gæta innra samræmis og gera öllum eignarrétti jafnhátt undir höfði þarf „fullt“ verð að standa í báðum ákvæðum. Við bætist að „sanngjarnt gjald“ mætti e.t.v. skoða sem stjórnarskrárvarinn afslátt handa útvegsmönnum. Alþingi lét sér segjast og „fullt gjald“ fékk að standa óbreytt þar til það gerðist á lokametrum meðferðar frumvarpsins á Alþingi 2013 að í stað orðanna „gegn fullu gjaldi“ voru skyndilega komin orðin „gegn eðlilegu gjaldi“. Þingmenn eiga eftir að upplýsa hver laumaði þessari dulbúnu efnisbreytingu inn í frumvarpið eins og til að veita útvegsmönnum fyrirheit um stjórnarskrárvarinn afslátt. Mínar heimildir á Alþingi herma að breytingin hafi verið gerð að undirlagi þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta þarf að upplýsa.“