Ég heyrði fréttirnar af útreikningum útvegsmanna í Vestmannaeyjum og Austfjörðum, á áhrifum breytinga á kvótakerfinu. Ég verð að segja að mig undrar stórlega eiginhagsmunahyggja þessara manna. Hvernig væri nú að þeir reiknuðu líka út áhrifin sem urðu við breytinguna þegar þeir fengu kvótann til einkaafnota, endurgjaldslaust. Hvaða áhrif hafði það á sjávarbyggðir vítt og breytt um landið? Ég veit það því ég gerði úttekt á stöðunni fyrir árið 1986.

Hugarheimur þessara manna virðist ekki ná út yfir það þrönga svið, að þeir einir fái að gera eins og þeir vilija, annars verði algjört hrun í greininni. Engin verðmæti verði lengur til úr þeim afla sem veiddur verður. Allir sem hafi vinnu hjá þeim, verði atvinnulausir. Enginn komi í þeirra stað.

Þetta er afburða kjánalegt því sagan geymir einmitt sagnir af mönnum, eins og þeim, sem töldu sig ómissandi í sjávarútveginum. Reynslan hefur hins vegar sýnt okkur að alltaf koma aðrir menn til reksturs fiskiskipa og útgerða. Fiskurinn mun ekkert fara þó nýir menn stjórni fyrirtækjunum sem eiga bátana. Aflabrögð verða að þeim mörkum sem leyft verður að veiða, líkt og verið hefur.

Helsta breytingin sem orðið gæti, væri sú að meira af heildaraflanum yrði unnið hér á landi og þannig sköpuð meiri verðmæti úr takmörkuðu magni. Það mun að vísu dálítið breyta munstri hjá þeim útgerðum sem lagt hafa megináherslu á að auka fiskverkun í öðrum löndum, en horfa fram hjá þörf þjóðarinnar fyrir atvinnusköpun og auknar gjaldeyristekjur.

En að lokum.  Verða þessir skelfilegu útreikningar birtir opinberlega, svo betur sé hægt að átta sig á þeirri ógn sem þessir menn sjá í framtíðinni?                           

mbl.is Dökk mynd dregin upp

Heimild : gudbjornj.blog.is

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!