Ólafur Jónsson togaraskipstjóri og fiskveiðifræðingur sem betur er þekktur undir nafninu Óli ufsi hefur að undanförnu vakið mikla athygli á Facebook fyrir kraftmikla myndbandspistla þar sem hann segir ráðamönnum til syndanna. Ólafur hefur eins og margir, barist gegn kvótakerfinu og vill að það verði afnumið og þjóðin fái að njóta góðs af því.

Í nýjum pistli Ólafs sem hann birti rétt eftir áramót gerir hann ávörp og viðtöl við ráðamenn þjóðarinnar um áramótin að sérstöku umtalsefni og fer hörðum orðum um skilningsleysi þeirra í garð þjóðarinnar

fyrirmenn þjóðarinnar höfðu miklar áhyggjur af því að fólk væri órólegt, vildu endilega róa okkur öll niður og virtust ekki gera sér grein fyrir því að þegar það er verið að grýta sprengjum inn í þjóðfélagið að þá er fólk ekki þolinmótt og rólegt,

segir Ólafur.

Verið að eyðileggja velferðarkerfið

Ólafur bendir á að verið sé að eyðileggja framtíð þeirra barna sem er að alast upp í þjóðfélaginu með mörgum af þeim aðgerðum ráðamanna sem ráðist hefur verið í að undanförnu

og svo kemur hver silkihúfan á fætur annari og segir, veriði bara róleg, það er verið að taka kvótann og framselja hann til eilífðar, við eigum aldrei að fá að veiða hann og þið segið okkur að vera bara róleg, það er verið að eyðileggja rándýrt velferðarkerfi, það er verið að eyðileggja sjúkrakerfið okkar sem við erum búin að eyða peningum og vinnu í að byggja upp, það á bara að eyðileggja þetta og við eigum bara að vera róleg

og áfram heldur Ólafur

það er verið að eyðileggja menntakerfið og við eigum bara að vera róleg, og lífeyrisþegar eiga ekki einu sinni ofan í sig að éta og eiga bara að vera rólegir af því að forsætisráðherran kemur með lygaaugun í ávarpi til þjóðarinnar og les yfir okkur pistilinn.

Ólafur hvetur fólk til að taka þessu ekki þegjandi og hljóðalaust

nei við skulum ekki vera róleg góða fólk, þetta eru okkar eignir, velferðarkerfið er okkar eign og við erum búin að leggja mikið á okkur við að byggja þetta kerfi upp og kvótakerfið verður að víkja svo við getum farið að nýta okkar eign,

segir Ólafur.

Hér má nálgast fleiri pistla Ólafs á vefnum Youtube.

Pistlinn birtist einnig á vefsíðu Útvarps Sögu.