Það er mikið látið með útgerðina. Sagt er að hún sé sjálfbær og vel rekin og þess vegna megi ekki hreyfa við rekstrargrundvelli hennar. Best rekna einkaútgerð í heimi. Og að það þurfi að ríkja „fyrirsjáanleiki“ til þess að hinn árangursríki rekstur geti haldið áfram. Þess vegna er sköttum létt af henni. Og nú er áformað að úthluta veiðiheimildum á sérhverja fiskitegund með lögum svo langt fram í tímann að nánast verði óframkvæmanlegt að breyta nokkru þar um nema með ærnum kostnaði fyrir þjóðarbúið, málaferlum og stórfelldum skaðabótum til útgerðarinnar. Þetta er „fyrirsjáanleikinn“ í ljóma síns ágætis.
Með villandi umræðu hefur talsönnum útgerðarinnar tekist að koma því inn hjá þjóðinni í gegn um fjölmiðla, úr ræðupúlti alþingis og ráðherrastólum, að ein og óstyrkt skapi útgerðin sinn auð. Talsmönnunum hefur tekist að fela ákveðna staðreynd, sjá til þess að hún sé sjaldan eða aldrei í umræðunni. Gera hana „ófyrirsjáanlega“ lengstum stundum. Þó ættu allir að vita af henni. Og flestir gera það. En ræða það sjaldan. Eigi að síður blasir þetta við hverjum sem hefur opinn skilningarvit: Útgerðin er ríkisstyrkt!
Það er ekki nóg með að hin alþjóðlegu íslensku útgerðarfélög hafi aðgang að þjóðarauðlind fyrir smánargjald til þess að veiða þann fisk sem þau hafa tæki og tækni til. Þau fá einnig kvóta til þess að veiða fiskitegundir sem þau geta ekki veitt. Tegundir sem þau hafa hvorki veiðarfæri né skip til þess að veiða. Þetta er gjafakvóti. Kvóti sem þau skipta fyrir veiðiheimildir sem þau geta nýtt sér. Þau selja hann líka. Fyrir peninga. Hundruðir miljóna á ári hverju. Sá peningur fer beint í kassa útgerðanna.
Gjafakvótinn er ríkisstyrkur til útgerðarinnar. Meðlag frá fólkinu í landinu. Íslenska stjörnuútgerðin er ríkisstyrkt. Hún er að hluta til þurfalingur á þjóðinni.