Ólafur Örn Jónsson togarasjómaður, stundum nefndur Óli Ufsi, í viðtali við Síðdegisútvarpið í umsjá Péturs Gunnlaugssonar á Útvarpi Sögu.

Í viðtalinu kemur fram hvernig andstæðingar kvótakerfisins hafa verið reknir úr vinnu fyrir að tjá skoðanir sínar um sjávarútvegssmál.

Mikið sé um að sjómenn og starfsfólk í sjávarútvegi þori ekki að láta í ljós skoðanir sínar um kvótakerfið. Fólk þori t.d. ekki greina frá svindli við vigtun eða brottkasti á fiski, af ótta við refsiaðgerðir eða atvinnumissi.

Þöggun og skoðanakúgun sé einn af fylgifiskum kvótakerfisins, enda gífurlegir fjárhagslegir hagsmunir í veði að viðhalda kerfi sem þjónar aðeins fámennum hópi manna.

Óli ufsi segist vita dæmi þess að menn hafi verið reknir frá stórum útgerðarfyrirtækjum fyrir það eitt að tjá sínar skoðanir á sjávarútvegsmálum sem ekki hugnist þeirra atvinnurekendum.

Ólafur segist sjálfur hafa orðið fyrir þeirri reynslu þegar hann vann hjá HB Granda á árum áður en hann segist hafa verið látinn taka pokann sinn vegna greinarskrifa hans um sjávarútvegsmál.

,,þeir létu það aldrei í ljós en ég komst bara að því seinna að það var ástæðan fyrir því að þeir losuðu sig við mig og ekki bara mig heldur alla áhöfnina,“

segir Ólafur.

Þegar Ólafur er inntur eftir því hvort hann viti um fleiri slík dæmi segir hann

,,jájá það eru menn sem hafa orðið fyrir þessu og endað á hafa farið úr því að vera aflahæstu menn í sínum landshluta og endað á bensínstöðvum“