Þskj. 1053  —  658. mál.

Frumvarp til laga 

um veiðigjöld. 

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)

  1. KAFLI
    Gildissvið, markmið og skilgreiningar.
    1. gr.
    Gildissvið.

Lög þessi taka til veiðigjalda, almenns veiðigjalds og sérstaks veiðigjalds, sem lögð eru á aflamark, aðrar úthlutaðar aflaheimildir eða landaðan afla, fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða eða öðrum lögum er við geta átt.

  1. gr.
    Markmið.

Veiðigjöld eru lögð á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.

Það er röng hugsun, miðað við kröfur þjóðarinnar, sem kemur fram í 2. gr. frumvarpsins. Eðlilegra væri að segja.

“Veiðigjald er lagt á allar veiðar úr þeim nytjastofnum Fiskveiðilögsögu Íslands, sem takmarka þarf veiðar úr með lagasetningum um stjórnun fiskveiða.

Við löndun á afla af kvótabundinni tegund  úr fiskveiðilögsögu Íslands, skal veiðiskip greiða til ríkissjóðs ákveðið hlutfall aflaveðmætis, sem veiðgjald vegna nýtingarréttar. Verðmæti skal miðast við meðalverð hverrar fiskitegundar á fiskmörkuðum þann dag sem aflanum er landað. Kaupandi fisksins ábyrgist skil á veiðigjaldi til ríkisins.

Veiðigjald skal vera  10% af löndunarverði afla eða söluverði afurða vinnsluskipa. Við innheimtu nýtur veiðigjald réttarstöðu forgangskröfu, næst á eftir launakröfum.”

  1. gr.
    Skilgreiningar.

Í lögum þessum hafa hugtökin aflahlutdeild, aflamark, fiskveiðiár, veiðiheimild, þorskígildi, og þorskígildisstuðull þær merkingar sem í þau eru lögð í lögum um stjórn fiskveiða. Eftirtalin hugtök hafa þessa merkingu í lögum þessum:

  1.     Uppsjávarafli: Afli af fisktegundunum síld, loðnu, kolmunna, makríl og öðrum hliðstæðum tegundum smáfiska.
  2.     Botnfiskafli: Annar sjávarafli.
  3.     Veiðar: Veiðar og meðhöndlun afla um borð í fiskiskipi.
  4.     Vinnsla: Meðferð sjávarafla í landi.
  5.     Auðlindarenta (reiknuð renta): Arður sem myndast í atvinnustarfsemi sem byggist á nýtingu náttúruauðlinda umfram rekstrarkostnað og ávöxtun þess fjár sem bundið er í starfseminni sem eðlileg er talin með tilliti til þeirrar áhættu sem í henni felst. 

Lög þessi eru sett sem viðbót við lögin um stjórn fiskveiða. Lögin heita “Stjórn fiskveiða”. Þess vegna er ekkert í markmiðum laganna sem réttlætir að leggja einhverjar álögur á vinnslu aflans í landi. Fiskvinnslan kaupir aflann af veiðiskipi og greiðir fyrir fullt verð og af því verði á veiðiskipið að greiða sitt veiðigjald, enda heitir það VEIÐIGJALD.  Úrvinnsla aflans getur ekki verið á annan veg kostnaðarlega tengd aflanum en lítur að því verði sem fiskvinnslan greiðir fyrir aflann.

Það getur ekki staðist jafnræðisreglu stjórnarskrár að miða greiðslu veiðigjalds við auðlindarentu, því með þeim hætti er ríkissjóður orðinn beinn þátttakandi í útgerðarkostnaði óhagkvæmra útgerðarhátta, án þess að hafa beinan atkvæðisrétt um ákvarðanatökur í viðkomandi útgerðarfyrirtækjum. Stjórnvöld hafa þannig ekki stöðu til að mótmæla óhagkvæmum veiðiskipum eða útgerðarkostnaði. Ólögmæt mismunun kæmi m. a. fram í því að útgerðarfélagi gæti verið hagur að því að reka óhagkvæm veiðiskip, sem vegna mikils kostnaðar greiddu lítið sem ekkert veiðigjald, en aðrir sem rækju hagkvæm veiðiskip greiddi umtalsvert hærra veiðigjald, miðað við veiddan afla.

Auðlindarenta getur aldrei verið heiðarlegt eða réttlátt veiðigjald vegna hinna mörgu möguleika sem útgerð hefur til að svindla á tekjum, svo útkoman reksturs verði tap en ekki hagnaður. Í taprekstri skapast engin auðlindarenta.

Hvernig er t. d. hægt að svindla á tekjum útgerðar?  Það er lítill vandi í svona litlu landi, þar sem allir aðilar fiskveiða og –vinnslu þekkjast.  útgerðin getur gert samning við fiskvinnslu um að fiskvinnslan kaupi aflann á lægra verði en útgerðin fái síðan mismuninn greiddan sem aðra selda þjónustu, sem ekki ber veiðigjald. Tap verður þannig hjá útgerðinni af veiðunum en í heildina skilar útgerðin kannski hagnaði út frá öðrum tekjuþáttum, sem m. a. gætu verið þessi hluti fiskverðsins sem greiddur var sem önnur þjónusta. Slíkt hefði einnig áhrif á skil útgerðar á virðisaukaskatti, þar sem tekjur af sölu afla yrðu lægri en ella en kostnaður útgerðarinnar skapaði halla, sem jafnframt mundi líklega þýða endurgreiðslu á virðisaukaskatti af rekstrarkostnaði.

Þetta er einungis örlítið brot af öllu því svindli sem mögulegt er, til sniðgöngu á greiðslu veiðigjalds, ef útreikningur þess er miðaður við auðlindarentu. Af þeirri ástæðu sem og af alvarlegri mismunun útgerða á greiðslu veiðigjalds miðað við magn afla, á slíkt viðmið ekki að koma til greina.

  1. gr.
    Veiðigjaldsnefnd.

    Ráðherra skipar þrjá menn og aðra þrjá til vara í nefnd til fimm ára í senn til að ákvarða sérstakt veiðigjald, sbr. 8. gr., og gera tillögu um undanþágu frá álagningu sérstaks veiðigjalds, sbr. 3. mgr. 8. gr. Nefndin skal skipuð mönnum sem hafa þekkingu á sviði hagfræði, sjávarútvegsmála og reikningshalds.

    Ráðherra skal birta fjárhæð sérstaks og almenns veiðigjalds fyrir komandi fiskveiðiár með reglugerð fyrir 15. júlí ár hvert.

Miðað við framanskráð er þessi nefnd og þessi grein alveg óþarfur kostnaður.

  1. KAFLI
    Gjaldtaka.
    5. gr.
    Gjaldskyldir aðilar.

Gjaldskyldir aðilar eru einstaklingar og lögaðilar sem fá úthlutað aflamarki, öðrum aflaheimildum eða landa afla á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða.

Eins og þessi grein er orðuð, er sá möguleiki fyrir hendi að tvígreitt verði veiðigjald af aflamarki sem flutt væri milli útgerða. Samkvæmt því sem segir í lagagreininni ætti sá sem fær úthlutunina að greiða veiðigjald af úthlutuninni. Sá sem fengi aflaheimildina flutta til sín og veiddi þann afla, þarf líka að greiða veiðigjald af lönduðum afla.

Með hliðsjón af framanskráðu má komast hjá þessu með því að hafa texta þessarar greinar eftirfarandi:

„Allir sem landa afla úr kvótabundnum nytjastofnum innan Fiskveiðilögsögu Íslands, skulu greiða veiðigjald sem hlutfall af löndunarvirði afla veiðiskips eða söluvirði afurða vinnsluskips.“

  1. gr.
    Gjaldstofn.

Gjaldstofn almenns og sérstaks veiðigjalds er afli hvers gjaldskylds aðila í þorskígildum samkvæmt úthlutuðu aflamarki, öðrum aflaheimildum eða lönduðum afla.
Þegar um er að ræða tegundir sem úthlutað er til einstakra skipa skulu gjöldin miðast við úthlutað aflamark í kílóum talið.

Fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en greinir í 2. mgr. skulu gjöldin miðast við landaðan afla skips í viðkomandi tegund samkvæmt aflaupplýsingakerfi Fiskistofu á tólf mánaða tímabili sem lýkur einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Gjöld vegna strandveiða miðast við landaðan afla í strandveiðum og miða skal við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum sem þeir eru ekki bundnir aflatakmörkunum í en sæta ákvörðun um heildarafla.      Þessi grein falli niður í heild sinni.

  1. gr.
    Almennt veiðigjald.

Almennt veiðigjald skal vera 8 kr. á hvert þorskígildiskíló. Almennt veiðigjald á hvert skip skal þó aldrei vera lægra en 5.000 kr.    Breyta orðalagi:

Almennt veiðigjald skal vera 10% af löndunarvirði afla veiðiskips og sama hlutfalla af söluvirði afurða vinnsluskips. Almennt veiðigjald á hvert skip skal þó aldrei vera lægra en 15.000 kr.  

  1. gr.
    Sérstakt veiðigjald.

Sérstakt veiðigjald skal skilgreint í krónum á hvert þorskígildiskíló eftir veiðiflokkum, þ.e. botnfiskveiðum og uppsjávarveiðum. Sérstakt veiðigjald skal vera 70% af stofni til útreiknings á gjaldinu eins og stofninn er skilgreindur í 9. gr. að frádregnu almennu veiðigjaldi skv. 7. gr.

Álagning sérstaks veiðigjalds samkvæmt þessari grein skal vera þannig á hvert skip á fiskveiðiárinu:
a.     af fyrstu 30.000 þorskígildiskílóum greiðist ekkert gjald,
b.     af næstu 70.000 þorskígildiskílóum greiðist hálft gjald,
c.     af þorskígildiskílóum umfram 100.000 greiðist fullt gjald.
Ráðherra er heimilt að tillögu veiðigjaldsnefndar að lækka eða undanþiggja sérstöku veiðigjaldi afla úr tilteknum fiskstofni ef sýnt er að afkoma er verulega lakari við þær veiðar en almennt gerist. Einnig má undanþiggja tilraunaveiðar sérstöku veiðigjaldi ef sýnt er að renta þeirra veiða er engin eða neikvæð.        Greinin falli niður í heild sinni.

 

  1. gr.
    Stofn til útreiknings á sérstöku veiðigjaldi.

Stofn til útreiknings á sérstöku veiðigjaldi er samtala reiknaðrar rentu á hvert þorskígildiskíló, annars vegar í fiskveiðum og hins vegar í fiskvinnslu. Rentu á þorskígildiskíló skal reikna sérstaklega fyrir veiðar og vinnslu botnfisks og fyrir veiðar og vinnslu uppsjávarfisks eins og nánar er kveðið á um í 10. gr.

Rentu í veiðum og vinnslu skal jafnað á afla í veiðum og vinnslu á sama tekjuári og skattframtöl sem lögð eru til grundvallar útreikningum Hagstofu Íslands byggjast á. Skal sá afli umreiknaður til þorskígilda fyrir komandi fiskveiðiár samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða.
Reiknaðri rentu í uppsjávarveiðum skal jafnað á þorskígildi afla í uppsjávarveiðum. Reiknaðri rentu í vinnslu uppsjávaraflar skal jafnað á þorskígildi þess uppsjávarafla sem unninn var.

Stofn til útreiknings á sérstöku veiðigjaldi í uppsjávarveiðum skal vera reiknuð renta á þorskígildi í veiðum á uppsjávarfiski að viðbættri reiknaðri rentu á þorskígildi í vinnslu á uppsjávarfiski.
Reiknaðri rentu í botnfiskveiðum skal jafnað á þorskígildi afla í botnfiskveiðum. Reiknaðri rentu í vinnslu botnfisks skal jafnað á þorskígildi heildarafla viðmiðunarársins að frádregnum þeim uppsjávarafla sem fór í vinnslu, sbr. 3. mgr.

Stofn til útreiknings sérstaks veiðigjalds á þorskígildi í botnfiskveiðum skal vera reiknuð renta á þorskígildi í veiðum á botnfiski að viðbættri reiknaðri rentu á þorskígildi á vinnslu á botnfiski.          Greinin falli niður í heild sinni.

 

  1. gr.
    Reiknuð renta.

Renta reiknast sem söluverðmæti afla eða afurða að frádregnum annars vegar rekstrarkostnaði vegna veiða og vinnslu, öðrum en fjármagnskostnaði og afskriftum rekstrarfjármuna, og hins vegar reiknaðri ávöxtun á verðmæti rekstrarfjármuna.
Til söluverðmætis afla eða afurða skal telja tekjur af sölu og leigu aflaheimilda. Til rekstrarkostnaðar skal telja niðurfærslu keyptra aflaheimilda í samræmi við ákvæði skattalaga.
Söluverðmæti afla og afurða skal byggja á upplýsingum sem Hagstofa Íslands vinnur árlega úr skattframtölum og aflar frá fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu, ásamt upplýsingum frá Fiskistofu, að teknu tilliti til breytinga á verðvísitölu sjávarafurða frá meðaltali þess tekjuárs sem framtölin byggjast á til 1. apríl ár hvert fyrir ákvörðun veiðigjaldsins.
Rekstrarkostnaður sem kemur til frádráttar, sbr. 1. mgr., skal byggjast á upplýsingum sem Hagstofa Íslands vinnur árlega úr skattframtölum og aflar frá fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu, ásamt upplýsingum frá Fiskistofu, að teknu tiliti til breytinga á vísitölu neysluverðs frá meðaltali þess tekjuárs sem framtölin byggjast á til 1. apríl ár hvert fyrir ákvörðun veiðigjaldsins.

Reiknaða ávöxtun rekstrarfjármuna, að meðtöldum birgðum, skal miða við áætlað verðmæti þeirra í lok tekjuárs, 8% í fiskveiðum, en 10% í fiskvinnslu, sem Hagstofa Íslands vinnur árlega úr skattframtölum og aflar frá fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu. Verðmæti skipakosts skal miða við vátryggingarverðmæti skipa eins og það er ákveðið af vátryggingafélögum að viðbættum 20% vegna búnaðar og tækja við fiskveiðar. Verðmæti fasteigna og annarra rekstrarfjármuna skal miða við bókfært verð þeirra án afskrifta, að teknu tilliti til breytinga á vísitölu byggingarkostnaðar frá meðaltali tekjuárs skattframtals til 1. apríl næst fyrir ákvörðun veiðigjaldsins.  Greinin falli niður í heild sinni

III. KAFLI
Álagning og innheimta.
11. gr.
Álagning veiðigjalda.

Veiðigjöld samkvæmt lögum þessum skulu lögð á af Fiskistofu og renna í ríkissjóð.
Álagning vegna aflamarks fer fram við úthlutun þess á hverju fiskveiðiári. Álagning á landaðan afla skal fara fram 31. ágúst ár hvert vegna afla sem landað var frá 1. ágúst næstliðins árs til 31. júlí á álagningarárinu. Fiskistofa tilkynnir gjaldskyldum aðilum álagningu á þá. Yfirstrikaður texti falli niður.

Engin forsenda réttlætir að veiðiskip greiði ekki veiðigjald samhliða sölu aflans. Eðlilegt er því að uppgjör veiðigjald til ríkissjóðs fari fram samhliða uppgjöri fiskkaupanda til útgerðar veiðiskips. Í stað yfirstrikaða textans komi:

Uppgjör veiðigjalds fari fram samhliða lögboðnu uppgjöri fiskkaupenda til útgerða veiðiskipa og telst sá dagur gjalddagi veiðigjalds. Eindagi greiðslu sé 15 dögum eftir uppgjörsdag aflavirðis, (gjalddaga).

  1. gr
    Innheimta veiðigjalda.

Fiskistofa innheimtir veiðigjöld. Ráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þeirra.

Gjöld vegna aflamarks sem úthlutað er 1. september falla í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum ár hvert, þ.e. 1. október sama árs, 1. janúar og 1. maí næsta árs. Taki úthlutun aflamarks gildi á tímabilinu 2. september til 31. ágúst er gjalddagi við útgáfu tilkynningar um úthlutað aflamark. Gjöldin eru ekki afturkræf þótt aflamark sé ekki nýtt. 

Gjalddagi veiðigjalda á landaðan afla einstakra tegunda sem ekki eru háðar aflamarki og á afla sem veiddur er við strandveiðar er 1. október á því ári sem fiskveiðiári lýkur.

Eindagi skv. 2. og 3. mgr. er 15 dögum eftir gjalddaga. Ef gjald er ekki greitt á eindaga reiknast dráttarvextir af fjárhæð gjalds frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við reglur laga um vexti og verðtryggingu.

Hafi greiðsla ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga fellur veiðileyfi skips niður. Lögveð er í skipi fyrir gjaldinu.

Sé ákvörðun tekin innan fiskveiðiársins um að lækka áður leyfðan heildarafla einstakra tegunda skal endurgreiða eiganda skips þann hluta veiðigjaldanna sem nemur sömu fjárhæð og innheimt var fyrir hvert þorskígildi sem aflaheimildir skips skerðast um.

Eigandi skips við álagningu veiðigjalda er ábyrgur fyrir greiðslu þeirra.

Yfirstrikaður texti falli niður, en í staðin koma eftirfarandi:

Eindagi skv. 2. mgr. ?. gr. er 15 dögum eftir gjalddaga. Ef gjald er ekki greitt á eindaga reiknast dráttarvextir af fjárhæð gjalds frá gjalddaga til greiðsludags í samræmi við reglur laga um vexti og verðtryggingu.

Hafi greiðsla ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga er Fiskistofu heimilt að senda skoðunarmenn til að skoða bókhald og fjárreiður fiskkaupanda. Leiði sú skoðun ekki til greiðslu gjaldfallins veiðgjalds, fellur niður veiðileyfi skips, ásamt leyfi fiskkaupanda til frekari kaupa á fiski úr fiskveiðilögsögu Íslands. Lögveð er í veiðiskipi fyrir gjaldinu, næst á eftir lögveði launakrafna skipsverja veiðiskips.

 

  1. KAFLI
    Gildistaka o.fl.
    13. gr.
    Rekstrarkostnaður.

    Almennt og sérstakt veiðigjald telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þessi texti er óþarfur þar sem veiðigjald er sannanlegur kostnaður við öflun tekna veiðiskips. Veiðigjaldið er því ótvíræður rekstrarkostnaður samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt.

 

  1. gr.
    Reglugerð.

Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m.a. um starfsreglur veiðigjaldsnefndar og forsendur útreiknings á sérstöku veiðigjaldi.

Með því að ríkissjóði verði ekki blandað í áhættuþætti útgerðarfyrirtækja, án skýrra lagafyrirmæla þar um, mun ekki verða þörf fyrir þau útgjöld sem af „veiðigjaldsnefnd“ mun hljótast. Er þeim texta lagagreinarinnar því ofaukið.

  1. gr.
    Gildistaka.

Lög þessi taka gildi 1. september 2012.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. skal sérstakt veiðigjald vera með eftirfarandi hætti:
    a.     60% af stofni til útreiknings á gjaldinu á fiskveiðiárinu 2012–2013 að frádregnu almennu veiðigjaldi sama fiskveiðiárs.

  1.     65% af stofni til útreiknings á gjaldinu á fiskveiðiárinu 2013–2014 að frádregnu almennu veiðigjaldi sama fiskveiðiárs. 

Ákvæði til bráðabirgða falli niður.

 

Greinilegt er að höfundar þessa frumvarps hafa hvorki leitt hugann að jafnræðisreglu stjórnarskrár eða því glapræðis svikamyllu sem þeir opna inná með því að láta ríkissjóð taka tekjulega áhættu af óhagkvæmur rekstri útgerðarfyrirtækja sem ríkissjóður á enga eignaraðild að. Augljóslega hafa höfundar þessa frumvarps ekki þekkingu á þeim málum sem lögin eiga að fjalla um. Og hafi þeir haft ráðgjöf, hefur sú ráðgjöf greinilega verið fjandsamleg ríkissjóði, því hvergi í ferlinu eru hagsmunir ríkissjóðs hafðir í forgrunni þó um mikilvæga náttúruauðlind sé að ræða.

Frumvarpið, eins og það er lagt fram, er með öllu óásættanlegt og frá mínu sjónarhorni mjög greinilega brot á stjórnarskrá.

Með kveðju,

Guðbjörn Jónsson

kt: 101041-3289

Kríuhólum 4,  111 Reykjavík

Heimild : gudbjornj.blog.is