Færeyska sóknardagakerfið er frábrugðið kvótakerfinu okkar að því leyti að það kerfi stjórnar sókn skipa á miðin og því hafa færeyskir sjómenn beinan hag af því að koma með allan þann fisk að landi sem í veiðarfærin kemur. Við notum hins vegar aflamarkskerfi – kvótakerfi og stjórnum því hvað kemur að landi. Því kemur ekki allt í land sem í veiðarfærin kemur – heldur aðeins það sem ,,borgar sig“ að koma með í land. Því eru okkar fiskiskip í raun ,,flokkunarvélar“ sem hámarka verðmæti hvers þorskígildis sem í land kemur, áður en að landi er komið. Veiðar og vinnsla er einnig aðgreind í Færeyjum og þar er öllum botn- og bolfiski landað á opna fiskmarkaði . Því er milljarða lögreglu- og eftirlitskerfi eins og Fiskistofa nær óþekkt fyrirbrygði þar. Jorgen Nicklasen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja sagði t.d. eitt sinn í viðtali við Fishing News að þeir vildu ekki kvótakerfi; vegna þess að þeir vildu ekki gera sína sjómenn að glæpamönnum.
Í Færeyjum er aðeins krókabátum undir 15 tonnum leyft að veiða innan 6 mílna. Þá er minni línuskipum heimilt að veiða á milli 6 og 12 mílna. Línuskipum með beitingavélar er gert að halda sig fyrir utan 12 mílur og togurum enn utar. Þá eru frystitogarar bannaðir innan færeysku landhelginnar. Hjá okkur mega togarar allt að 42 metrar að lengd fara allt upp að 4-5 mílum á ákveðnum stöðum, en frystitogurum gert að halda sig utan 12 mílna.
1) Í ársbyrjun 2003 ályktaði Alþingi að fela þáverandi sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd til að meta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins – en ekkert gerðist.
2) Um svipað leyti bauð þáverandi sjávarvegsráðherra Færeyja sjávarútvegsnefnd alþingis að koma í heimsókn og kynna sér þeirra kerfi – en það var ekki þegið. ( Einar K. Guðfinnsson)
3) Sáttanefnd Guðbjarts Hannessonar, kom sér algerlega hjá því á þeim 18 mánuðm sem hún starfaði, að ræða færeyska fyrirkomulagið þrátt fyrir að almenn ánægja ríki með kerfið þar – en alger óánægja hér. Stjórnmálamenn halda því áfram að slá höfðinu við steininn – spurning hvort þeir eigi ekki að slá aðeins fastar.
Undirritaður er fyrrverandi veiðarfærasölumaður.
Atli Hermannsson
http://floyde.blog.is/blog/floyde/