9555631404_e663c5b735_z

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hyggst gera athugasemdir við „fjölmörg atriði“ makrílfrumvarpsins, að því er fram kemur í umsögn fyrirtæksins sem birt hefur verið á vef Alþingis. Í henni er vísað til álits Umboðsmanns Alþingis, sérstaklega, þar sem fram kemur að úthlutun á makrílkvóta til þessa hafi ekki verið í samræmi við lög. Í umsögn Vinnslustöðvarinnar, sem Ragnar H. Hall hrl. ritar, eru þingmenn hvattir til þess að kynna sér álit Umboðsmanns Alþingis. Samtals hafa nú borist 24 athugasemdir við frumvarpið.

Er þar meðal annars vísað í eftirfarandi orð í áliti Umboðsmanns Alþingis: „Eins og orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 5.gr. laga nr 151/1996, sem og 8. og 9. gr. laga nr. 116/2006, er háttað verður að mínu áliti ekki annað lagt til grundvallar en að íslenskum stjórnvöldum beri að fylgja ákvœðum laga við úthlutun aflaheimilda til einstakra skipa óháð vilja ráðherra eða annarra.“

Kemur fram í umsögninni að Vinnslustöðin telji það mikið umhugsunarefni að stjórnvöld ætli ekki að fara að lögum, og boða mun fleiri athugasemdir við frumvarpið í frekari umsögnum.

Þá telur Vinnslustöðin enn fremur að fyrirtækið eigi að fá meirihlutdeild í makrílkvótanum en raunin er, en miðað frumvarpið og forsendur þess, fær fyrirtækið 9,22 prósent af heildarkvótanum. „Vinnslustöðin hf. telur að ef farið hefði verið að lögum um stjórn fiskveiða árið 2011 og úthlutað hefði verið miðað við veiðireynslu sl. 3 ára, sbr. 1. mgr. 9. gr. 1. nr. 116/2006, hefði hlutdeildin átt að vera 10,18% en ekki 9,22% eins og raunin varð. Ef úthlutað hefði verið eftir úthafsveiðilögunum og úthlutun miðast við þrjú bestu veiðitímabil á siðustu sex, sbr. 2. mgr. 5. gr. 1. nr. 151/1995 þá hefði hlutdeild VSV átt að vera 11,6% í stað 9,22%. Ljóst er að hér er um afar mikla hagsmuni að ræða. Lagasetning um slík atriði er vandasöm og krefst mikillar vandvirkni. Vinnslustöðin hf. leggur áherslu á að lagasetningin má undir engum kringumstæðum fela í sér afturvirka skerðingu á réttindum sem teljast eignarréttarvarin samkvæmt stjórnarskrá,“ segir í umsögninni.

Þessi mynd birtist í Fiskifréttum á dögunum, sem sýnir skiptingu 90 prósent af makrílkvótanum. Inn á myndinni stendur að Brim fái 13,8 prósent af heildinni, en reyndin er 3,8 prósent. Mynd: Fiskifréttir.
Þessi mynd birtist í Fiskifréttum á dögunum, sem sýnir skiptingu 90 prósent af makrílkvótanum. Inn á myndinni stendur að Brim fái 13,8 prósent af heildinni, en reyndin er 3,8 prósent. Mynd: Fiskifréttir.

Samkvæmt frumvarpinu verður aflahlutdeildum (kvóta) úthlutað niður á skip í áþekkum hlutföllum og á yfirstandandi fiskveiðiári. Enda byggir úthlutunin á núverandi fiskveiðiári á veiðieynslu fyrri ára. Útgerðir skipa og báta sem hafa aflareynslu frá árunum 2011-2014 fá aflahlutdeild í makríl úthlutað.  Hömlur eru á viðskiptum með aflaheimildir. Framsal verður óheimilt en tilflutningur milli skipa innan sömu útgerðar verður heimil. Þetta þýðir að makrílkvótinn mun ekki geta gengið kaupum og sölum á milli útgerða líkt og tíðkast með aðrar tegundir innan kvótakerfisins, í það minnsta fyrst um sinn. Í það minnsta ekki fyrst um sinn.

Í makrílfrumvarpi ráðherra verður kvótaskipting eftirfarandi:

  1. a) 90% til báta/skipa sem hafa aflareynslu frá árunum 2011-2014 (uppsjávar-, frysti- og ísfiskskip).
  2. b) 5% til smábáta sem veitt hafa makríl með línu eða handfæri á árunum 2009-2014.
  3. c) 5% til fiskiskipa í flokki a) sem unnu sérstaklega í manneldisvinnslu.

Ríflega 30 þúsund manns hafa nú krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um öll lög sem í sér úthlutun á fiskveiðiauðlindinni til lengri tíma en eins árs í senn, á vef síðunni Þjóðareign.is.

 

Heimild : kjarninn.is