Frumvarp um stjórn fiskveiða ATHUGASEMDIR við 6. til 9. grein

0
Share

III. KAFLI     Veiðistjórn.

  1. gr. Veiðar að ósekju.

Veiðar á þeim nytjastofnum sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla eru frjálsar öllum þeim skipum sem fá almennt veiðileyfi skv. 5. gr., með þeim takmörkunum sem leiðir af þessum lögum og öðrum lögum á sviði fiskveiðistjórnar.

Með hliðsjón af 75. gr. stjórnarskrár, þar sem segir að: “Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa, er vandséð að heimilt sé að binda veiðar úr nytjastofnum sem ekki sæta takmörkunum, veiðileyfum eins og eðlilega þarf til að fá heimild til veiða úr takmörkuðum stofnum. Eðlilegra hefði verið að þarna stæði að veiðarnar væru frjálsar öllum skipum sem hefðu haffærisskírteini og hreinlætisvottorð.

  1. gr. Heildarafli.

Ráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð heildarafla sem veiða má á ákveðnu fiskveiðiári, veiðitímabili eða vertíð úr einstökum nytjastofnum sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Ráðherra getur, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveðið að fylgt sé langtímanýtingarstefnu fyrir einstakar tegundir til allt að fimm ára í senn.

Þessi síðasta setning fyrstu málsgreinar sýnir á áberandi hátt þekkingarleysi frumvarpssmiða á viðfangsefninu.  Grunnregla fiskveiðistjórnunar er langtímamarkmið um uppbyggingu fiskistofna eins og segir í Markmiðum frumvarpsins 1. gr. a. lið, en þar stendur að markmið laganna sé: “að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland,”.

 Í lögum sem hafa það að FYRSTA MARKMIÐI að vernda sjálfbæra nýtingu fiskistofna, telst fimm ára regla SKAMMTÍMAHUGSUN.  Síðasta setning 1. mgr. 7. gr. verður því að falla burt, því hún gengur þvert gegn höfuðmarkmiðum laganna.

Heildarafli botnfisktegunda fyrir komandi fiskveiðiár skal ákveðinn fyrir 1. ágúst ár hvert. Heildarafli annarra nytjastofna skal ákveðinn með hæfilegum fyrirvara fyrir upphaf viðkomandi veiðitímabils. Ráðherra er heimilt innan fiskveiðiárs eða veiðitímabils að auka eða minnka heildarafla samkvæmt þessari grein.

Áætlaður afli erlendra skipa reiknast til heildarafla og skal dragast frá fyrir úthlutun skv. 8. gr. Eftirtalinn afli reiknast ekki til heildarafla:

  1.     Veiðar í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, sem og annarra rannsóknastofnana.
  2.     Veiðar í fræðsluskyni, enda séu veiðarnar óverulegar og aflinn ekki fénýttur.
  3.     Afli sem reiknast ekki til aflamarks sbr. 25. gr.

 

  1. gr. Úthlutun samkvæmt aflahlutdeildum.

Hafi nytjastofni, sem veiðar eru takmarkaðar úr skv. 7. gr., verið ráðstafað í aflahlutdeildir, skal ráðherra með reglugerð skipta heildaraflamarki hvers fiskveiðiárs í stofninum í flokka sem hér segir:

  1.     Flokkur 1: Samkvæmt aflahlutdeildum og krókaaflahlutdeildum, sbr. IV. kafla.
  2.     Flokkur 2: Samkvæmt annarri aflahlutdeild, sbr. VI. kafla.

Hér er enn á ferðinni ákvæði sem ekki eiga sér neina fótfestu í þessum lagatexta, en það eru hugtökin aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild. Að framan er rakið að engin lagaregla er sett um þessi hugtök í þessum lagatexta og ekki vísað til þess að þessi hugtök séu samkvæmt einhverjum öðrum lögum.  Þó í texta 8. gr. sé vísað til IV og VI kafla þessara laga, en í þeim köflum eru engar nauðsynlegar reglur um þessi hugtök, reglur líkt og að framan er rakið.

Verði ákveðinn heildarafli þorsks fyrir fiskveiðiár, sbr. 1. mgr., sem nemur meira en 202.000 lestum, fyrir ýsu sem nemur meira en 66.000 lestum, fyrir ufsa sem nemur meira en 50.000 lestum eða fyrir steinbít sem nemur meira en 14.000 lestum skulu 60% þess aflamarks sem umfram er í hverri tegund renna til flokks 1 og 40% til flokks 2.

 Þessi 2. mgr. 8.gr. er alveg hræðilega klúðurslega orðuð og mjög erfitt að skilja hver meiningin á að vera. En líklega er meiningin sú sem sett er fram hér fyrir neðan.

Verði ákveðið að heildarafli fyrir fiskveiðiár, sbr. 1. mgr., nemi meira en 202.000 lestum þorsks, 66.000 lestum ýsu, 50.000 lestum ufsa og 14.000 lestum steinbít, skulu 60% þess aflamarks sem umfram er í hverri tegund, renna til flokks 1 og 40% til flokks 2.

 

  1. gr. Nytjastofnar utan aflahlutdeilda.

Hafi nytjastofni, sem takmarka þarf veiðar úr skv. 7. gr., ekki verið ráðstafað í aflahlutdeildir skv. 8. gr., er ráðherra heimilt með reglugerð að stjórna veiðum á stofninum, með ákvörðun um leyfilegan heildarafla, eða árlegri úthlutun tiltekins magns, til einstakra skipa eða skipaflokka á grundvelli stærðar eða gerðar skips, veiðiaðferða, búnaðar, svæða, heimahafnar skips og útbreiðslu stofna. Reglur um stjórn veiðanna skulu tryggja að afli verði innan áætlaðs heildarafla.

Þegar veiðireynsla hefur myndast í stöðugu umhverfi og að öðrum efnislegum forsendum uppfylltum flytur ráðherra frumvarp til laga um úthlutun aflahlutdeilda í viðkomandi nytjastofni. Tekið skal mið af veiðireynslu, bæði fyrir og eftir gildistöku laga þessara, réttmætum hagsmunum þeirra sem hófu veiðar, verðmætamyndun og heildarmarkmiðum laganna.

Þarna er góður punktur. Um nýjar kvótategundir flytur ráðherra frumvarp til laga um úthlutun aflahlutdeilda. Hvers vegna þarf þá ekki líka að flytja frumvarp til laga um aflahlutdeildir þeirra tegunda sem nú þegar hafa verið kvótasettar? OG, á hvaða lagaheimildum eru núverandi aflahlutdeildir byggðar? Lagaheimildir sem lýsa því hvernig útgerð ávinnur sér hlutdeildarrétt, hvernig honum er við haldið og hvernig hann flyst milli úthlutunarára o.s.frv.

Heimild : gudbjornj.blog.is

%d bloggers like this: