Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi.
Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi.

Það sem hér fer á eftir er dálítið athyglisvert í ljósi þerrar sögu sem við þekkjum um fjölmiðla í dag þar sem sumir þeirra reyna allt hvað þeir geta til að snúa sannleikanum á hvolf eða láta sem hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru í ákveðnum málum.  Sumir fjölmiðlamenn eru þó heiðarlegri en aðrir og reyna að skrifa hlutlaust en eru oftar en ekki barðir niður af eigendum og ritstjórum fjölmiðlana og skikkaðir til að segja frá eins og yfirvaldið heimtar.
Ritskoðun og þöggun hefur lengi vel þekkst á íslandi og það er í raun ekki fyrr en samfélagsmiðlarnir verða virkari hér á landi að ýmislegt fer að koma upp á yfirborðið um þöggun í ákveðnum málum, málum sem koma sér illa fyrir ákveðna stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokka.  Þeir fjölmiðlar sem hægt er að spyrða beint eða óbeint við stjórnmálaöfl í landinu eru mis marktækir og í sumum tilfellum algerlega ómarktækir.  Þetta fékk Guðbjórn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi að reyna árið 2003 þegar hann hugðist fá birta eftir sig grein um stjórn Eimskips þess efnis hvort óskabarni þjóðarinar væri illa stjórnað.
Greinin fylgir hér að neðan en eftir henni eru síðan samskipti Guðbjörns við Þorkel Sigurlaugsson, framkvæmdastjóra hjá Eimskip, en greinin fjallaði um fiskveiðistjórnunarkerfið.

En hér er þetta í heild sinni.

Vorið 2003 gerði ég tilraun til að fá blöðin til að birta grein sem ég skrifaði, en ekkert þeirra var fáanlegt til þess. Ég ætla að prufa að setja hana hérna inn og sjá hvernig hún kemur út.
EIMSKIP VAR LENGI NEFNT ÓSKABARN ÞJÓÐARINNAR

Merki Eimskipafélagsins.
Merki Eimskipafélagsins.

Er óskabarni þjóðarinnar illa stjórnarnað?
Í kjölfar sviptinga á fjármálamarkaði, hefur komið upp umræðna um hæfni stjórnenda Eimskips. Þann 29. apríl 2003 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Þorkel Sigurlausson, framkvæmdastjóra hjá Eimskip, sem varð til bréfaskrifta okkar á milli. Greinin fjallaði um fiskveiðistjórnarkerfið.

Greinin vakti athygli mína því ég hef leitað í gegnum allt sem sagt hefur verið og skrifað á Alþingi um fiskveiðistjórnun, að heimildum til fyrirtækja, til að selji þá sameign þjóðarinnar sem aflaheimildirnar eru. Sú heimild er hvergi til. Öll sala á aflaheimildum er því utan laga og réttar, enda ekki til einn einasti löglegur reikningur fyrir slíkum viðskiptum.

Í grein sinni sagði Þorkell: “Fram hefur komið að um 80% af þeim aflaheimildum sem nú eru í notkun hjá einstaklingum og fyrirtækjum landsmanna hafa verið keypt dýru verði”.

Í ljósi þess að engin lagaheimild er til sem heimilar sölu aflaheimilda, vekur þessi framsetning nokkra athygli. Líklega eiga þessi ólögmætu viðskipti sér uppruna í afstöðu embættis ríkisskattstjóra skv. bráfi frá 4. júlí 1990, eða löngu áður en framsalsréttur var rýmkaður. Í bréfinu segir svo um skráningu aflaheimilda hjá þeim útgerðum sem fá úthlutað frá ríkinu:

“Það hefur ekki verið gerð krafa til þess að slík áunnin réttindi væru í skattalegu tilliti færð til eignar hjá eigendum viðkomandi skipa. Það er fyrst við kaup eða sölu þessara réttinda sem krafa er geð til skattalegra færslna.”

Fyrir þessu áliti sínu hefur RSK engar lagastoðir, og til marks um ólögmæti þessa álits RSK, hefur Alþingi aldrei tekið þessa túlkun inn í lagabreytingar sínar. Þegar ég vakti athygli Þorkels á þessu, ásamt því að aflaheimildumm væri úthlutað til eins árs í senn, var svarið:

“Það er verið að kaupa heimildir sem eru til staðar í ótilgreindan tíma.” Sem svar við því að óheimilt væri að selja aflaheimildir, svaraði Þorkell:

“Það var verið að kaupa fyrirtæki (Útgerðarfélag Akureyringa, Harald Böðvarsson, og Skagstrending) með þeim aflaheimildum sem þessi félög hafa. Við keyptum fyrirtæki með aflaheimldum og auðvitað var verðmiði á aflaheimildunum í veðrmætamati félagsins.”

Þarna viðurkennir Þorkell að Eimskipafélagið hafi vísvitandi greitt háar fjárhæðir fyrir aflaheimildir sem aldrei hefur verið lagaheimild fyrir að selja; einungis framselja, þ.e. að afhenda. Í grein sinni segir Þorkell að í ársreikningi Eimskips séu eignfærðir 13.4 milljarðar króna vegna aflaheimilda. Nemi það um 42% af markaðsverði Eimskips, sem hafi verið 32 milljarðar um síðustu áramót.

Þegar ég nefndi að mér þætti þetta nokkrum tíðindum sæta, þar sem útilokað væri að Eimskip hafi löglega útgefna reikninga vegna þessara kaupa á aflaheimildum. Löglegur eigandi aflaheimildanna hefur ekki heimilað þessa sölu. Svar Þorkels við þessu var eftirfarandi:

“Þetta er mikill misskilngingur. Eimskip keypti ekki beint aflaheimildir, heldur þrjú fyrirtæki sem voru með aflaheimildir.”

Í grein sinni segir Þorkell að erfitt og ósanngjarnt sé að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Helstu ástæður þeirrar ósanngirni telur hann vera þá að með því væri verið að rýra verðmæti eigenda Eimskipafélagsins, ásamt tugum annarra sjávarútvegsfyrirtækja. Þar á meðal níu þeirra stærstu sem skráð eru í Kauphöllina.

Eitt af því sem hann tilgreinir er, að lánakjör fyrirtækjanna versni. Einnig tilgreinir hann að Eimskipafélagið sé allverulega skudlsett, að stærstum hluta við erlenda lánastofnanir og að þær treysti því að ekki verði hróflað við fsikveiðistjórnunarkerfinu.

Vel má skilja þessar áhyggjur, þegar ljóst er að engin eign er að baki 42% af markaðsverði félagsins. Þarna staðfestist einnig, að í raun eru einstök fyrirtæki búið að taka fjármagn að láni með einskonar veði í sameiginlegri eign þjóðarinnar. Þetta er einnig alvarlegt áhættuspil í ljósi þess að skuldir sjávarútvegsins hafa vaxið langt umfram eignamyndun á undanförnum áratug.
Guðbjörn Jónsson, ráðgjafi.

Guðbjörn segir síðan í umsögn við greinina:

Í greininni hér að framan er einungis lítið brot af því sem fór á milli okkur Þorkels, framkvæmdastjóra Eimskips.

Guðbjörn heldur síðan áfram og birtir meira úr samskiptum sínum við framkvæmdastjórann.

Hér kemur annar kafli úr þriðja bréfi til framkvæmdastjóra Eimskips, vegna kaupa þeirra á aflaheimildum árið 2003:

Og áfram skal vitnað í það sem þú segir:

“Eimskip keypti ekki beint aflaheimildir, heldur þrjú fyrirtæki sem voru með aflaheimildir.”

Það passar ekki hjá þér að Eimskip hafi ekki keypt aflaheimildir beint. Hér að framan er vitnað til orða þinna, þar sem þú segir, “auðvitað var verðmiði á aflaheimildunum”. Fyrst verðmiði var á aflaheimildunum og þið keyptuð með þeim verðmiða inni í kaupverðinu, keyptuð þið aflaheimildir beint. Það sem verra er. Þið keyptuð af aðila sem ekki hafði heimild til að selja. Eins og þú manst væntanlega segir í 1. gr. laga nr. 38/1990 að úthlutun fylgi ekki eignarréttur eða forræði. Þið eruð því réttarfarslega í sömu stöðu og sá sem kaupir þýfi. Þið getið aldrei gert eignatilkall til þess sem keypt var.

Áfram skal vitnað í rök þín:

“Samkvæmt reikniskilavenjum á að eignfæra sem viðskiptavild, mismun á bókfærðu verði fasteigna, skipa o.fl. og svo kaupverð félagsins. Þessi mismunur kallast yfirleitt viðskiptavild og er í okkar tilfelli framtíðarhagnaður sem menn vonast til að verði af rekstrinum og stafar af þeim afalaheimildum eða réttindum sem félögin hafa til að nýta auðlindina”

Þó mat á viðskiptavild hafi verið að taka nokkrum breytingum á undanförnum árum, er ekki þar með sagt að hægt sé að kalla hvað sem er viðskiptavild. Það getur t.d. ekki flokkast undir viðskiptavild, sem greitt er til seljanda fyrir hlut eða réttindi sem hann hefur ekki lögformlegan rétt til að selja. Væri slík regla komin á, væri t.d. hægt að færa keypt þýfi sem viðskiptavild. Kaup og sala á þýfi hefur allar sömu forsendur og viðskipti með aflaheimildir. Réttur eignandi er ekki látinn staðfesta söluna og þar af leiðandi ekki hægt að gefa út löglegan reikning vegna viðskiptanna. Réttarstaða kaupanda veiðiheimilda og þýfis er því sú sama.

Áfram skal vitnað í þín orð:

“Markaðurinn hefur metið þetta svona í viðskiptum.”

Rétt er það að markaðurinn hefur metið svona, eingöngu vegna þess að svo margir skammt hugsandi menn eru í fyrirtækjarekstri, eða rekstraraðilar sjávarútvegsfyrirtækja eru svo forhertir að þeir telji sig komast upp með að hrifsa til sín helstu auðlind þjóðarinnar. Það er alþekkt, yfir margra alda skeið, að markaðurinn metur þýfi ekkert lægra verði en annað. Stundum jafnvel hærra verði, sé kaupandinn hallur undir að storka réttum reglum.

Vilji markaðar getur aldrei réttlætt þjófnað eða viðskipti með verðmæti sem seljandinn hefur ekki lögformlegt forræði yfir. “Markaður” með aflaheimildir varð ekki heldur til vegna sérstakrar þarfar á að kaupa réttinn, því stjórnvöld úthluta honum án gjalds og þjóðfélaginu er nauðsyn að rétturinnn sé fullnýttur á hverju ári. Enginn gat því komist upp með að veiða ekki sínar heimildir, en halda þeim samt í úthlutun næsta árs. “Markaðurinn” varð til sem stjórntæki afla sem ætluðu sér að ná varanlegum yfirráðum yfir auðlindinni. Þetta er augljóst öllum hugasndi mönnum.

Þetta virkar svolítið ruglingslegt, því í umsagnakerfinu með fyrsta hlutanum kemur síðan þessi klausa.

Úr þriðja bréfi til framkvæmdastjóra Eimskips.

Það er nánast móðgun við heilbrigða skynsemi að halda því fram að “þjófnaðurinn” á þjóðarauðlindinni hafi skapað bættan þjóðarhag. Við horfum á skuldir þjóðfélagsins tvöfaldast en tekjumyndun nánast standa í stað eða jafnvel minnka að raungildi. Við horfum á skuldir sjávarútvegsins verða að svimandi fjárhæðum, sem ekki getur þýtt annað en að umtalsvert hærra hlufall aflaverðmætis fer til greiðslu fjármagnskostnaðar, sem í flestum tilfellum er erlend fjármögnun. Við horfum á lánastofnanir taka gíkatískar fjárhæðir að láni erlendis, til neyslulána í þjóðfélagi okkar, á sama tíma og viðskiptakjör afurða okkar eru með því besta sem þekkist. Við horfum á lánastofnanir lána þetta fé til atvinnustarfsemi sem stefnt er gegn annarri starfsemi á sama markaði, sem viðkomandi lánastofnun á jafnvel verulegt útistandandi lánsfé hjá. Við horfum á lánastofnanir veita verulegar fjárhæðir að láni án minnsta möguleika á að geta fengið þetta fjármagn endurgreitt frá þeirri starfsemi sem það er lánað til, eða frá þeim einstakling sem lánið fær. Við vitum um það sem komið hefur fram á Alþingi, að fyrir tæpum áratug töpuðu lánastofnanir umtalsvert hærri fjárhæðum vegna óraunhæfra útlána, en nemur brúttó heildartekjum þeirra fyrir sama tímabil. Háttum útlána var ekkert breytt, þrátt fyrir þessa staðreynd og nú blasir við að lánastofnanir séu að tapa umtalsvert hærri fjárhæðum, vegna óskynsamlegra útlána, á fé sem tekið var að láni erlendis.

Nei, ég kaupi ekki órökstudda fullyrðingu þína um að hagur þjóðarinnar hafi batnað þó nokkurir aðilar hafi beitt þeim óheiðarlegu reiknikúnstum að skrá eignir þjóðarinnar sem eigiðfé fyrirtækja sinna.

Að lokum kemur svo fjórði og síðasti hlutinn úr bréfinu.

Í bréfi mín til þín, tala ég um veðsetningu auðlinda þjóðarinnar. Því svarar þú á þennan hátt:

“Það er rangt. Eimskipafélagið veðsetti ekki neitt og tók engin lán út á kaupin á sjávarútvegsfyrirtækjunum heldur yfirtók þau lán sem eru þar fyrir að mestu frá tíð fiskveiðasjóðsins gamla og eru nú í Íslandsbanka.”

Sé þetta rétt, bættir það ekki stöðu Eimskipafélagsins, því hafi skuldir verið svona litlar, hefur stjórn Eimskips hugsanlega hlunnfarið hlutafjáreigendur í félaginu, eins og komið verður að hér á eftir. Þú sagðir jú fyrr í svari þínu að verðmiði hefði verið á aflaheimildunum, þannig að ykkur var ljóst hvað af söluverðinu var án heimilda til sölu og yrði ekki að traustri eign.

Í raun staðfestir þú orð mín um veðsetningar til erlendra banka, með eftirfarandi orðum þínum:

“Erlendir bankar sem hafa lánað Eimskipafélaginu vita nákvæmlega hver staðan er og þess vegna eru þeir víða uggandi ef fótum er kippt undan rekstrarafkomunni, en treysta því að kerfinu verður ekki breytt. Það er einmitt alvarleiki málsins að ef kerfinu er breytt gera bankar sér grein fyrir að tryggingar þeirra eru ekki góðar og vextir mundu þá hækka. Þeir hafa áhyggjur af hruni fyrirtækja ef aflaheimildir þeirra eru teknar til baka. Það voru aftur bankar sem hafa lánað sjávarútvegsfyrirtækjum í trausti þess að aflaheimildir væru ekki teknar og þeim dreift á einhverja aðra.”

Mér er ekki ljóst hvað mikið betur þarf að staðfesta að auðlind þjóðarinnar hafi verið vesett erlendum bönkum. Þeir hafa áhyggjur af hruni fyrirtækja og lélegum tryggingum lána sinna, verði kerfinu breytt. Hvað segir þetta okkur.
Það er einfallt. Fyrirtækin eru ekki rekstrarhæf ef tekin er af þeim heimildin til að selja sameign þjóðarinnar, sín á milli og til svonefndra “leiguliða”. Staðfestist þetta einnig rækilega í úttekt sem Vinnslustöðin i Vestmannaeyjum kynnti nýlega.

Í fyrra bréfi mínu segi ég að, ef ég ætti hlutabréf í Eimskip, mundi ég krefjast opinberrar rannsóknar á bókhaldi félagsins og lánatryggingum. Þú opinberaðir að félagið skráði ótvíræða þóðareign í eignabókhald sitt, án þess að félagið hefði lögformlega afsölun rétts eiganda þeirra eigna. Þessu svarar þú á þennan hátt:

“Þetta er rangt eins og áður sagði, þetta er skráð sem viðskiptavild og hluthafar og lánastofnair gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem í þessu felst.”

Kaup á aflaheimildum uppfylla ekki eðlileg sklyrði til bókfærslu sem viðskiptavild, vegna þess að engir traustir samningar eru til um núverandi fyrirkomulag. Ef koma ætti þessum greiðslum inn í bókhald, sýnist mér það helst falla undir flokkun veltufjár.

Öllum sem ætla að vinna innan réttarkerfis okkar á að vera ljóst að núverandi fyrirkomulag við úthlutun aflaheimilda stenst ekki ákvæði stjórnarskrár. Það hefur Hæstiréttur staðfest. Rétturinn leit framhjá því að þessi regla hefði verið viðhöfð í upphafi, vegna byrjunaratriða við stjórnun, en hann segir beinlínis að þessi regla geti ekki viðgengist til frambúðar.

Mér er ekki ljóst hvernig þeir aðilar sem kaupa aflaheimildir geta gengið svo þvert gegn áliti æðsta dómsstigs landsins, en vilja samt eiga víst réttlæti þessa sama dómsstigs þegar á rétti þeirra er brotið. Það eru auðvirðilegir menn sem virða réttarúrskurði æðsta dómstigs landsins, einungis þegar það hentar þeim.

Þó lánastofnanir geri sér grein fyrir áhættunni af því að lána fyrir kaupum á aflaheimildum, sem ég efast þó stórlega um að þær geri, er ég handviss um að hvergi í lánasamningum er ákvæði um víkjandi stöðu lánsins, verði úthlutun aflaheimilda breytt.

Ég er alveg handviss um að þú ferð með rangt mál um að hluthafar í Eimskipafélaginu, fyrir kaup þess á sjávarútvegsfyrirtækjum, geri sér fulla grein fyrir hvað þessi vitleysa getur kostað þá. Niðurlag svars þíns er eftirfarandi:

“Félagið hefur heldur ekki tekið nein lán vegna kaupa á sjávarútvegsfélögunum. Kaupverðið var greitt með útgáfu hlutafjár í Eimskipafélaginu til þeirra sem áttu í sjávarútvegsfélögnum.”

Ég er alveg viss um að hluthafar gera sér ekki grein fyrir að þessi framkvæmd færði niður raunverulegt verðgildi hlutabréfa þeirra um verulegar fjárhæðir, eða um 42%, eins og þú segir sjálfur að verðmæti aflaheimilda sé af heildarverðmæti Eimskipafélagsins.

Hér hef ég farið yfir þau svör sem þú sendir mér. Ég get því miður ekki tekið ofan fyrir þessum viðhorfum til sameignar þjóðarinnar, sem fram koma í skrifum þínum. Ég er heldur ekki viss um að afkomendur ykkar verði hrifnir af framgöngu ykkar, þegar sagnfræðingar framtíðarkynslóða fara að lesa um okkar tíma.
Ég bið þess að þið látið sem fyrst af þessum eyðileggingum á íslensku efnahagslífi og ykkur auðnist að öðlast heilbrigð sjónarmið til hagsbóta fyrir heildina.

Með kveðju.
Guðbjörn Jónsson

Þessu bréfi svaraði Þorkell aldrei en margir sægreifar skömmuðu mig fyrir frekjuna.  Ég vildi láta þessi sjónarmið koma fram því þau eru í raun fullgild enn í dag og ég te að í þessum samskiptum felist það afl sem þarf til að breyta kvótakerfinu þjóðnni til hagsbóta. Gangi ykkur vel í baráttunni.

Merki Sóknarhópsins
Merki Sóknarhópsins

Það er alveg vel þess virði að lesa þetta allt saman og eins umsagnirnar og útskýringarnar sem fylgja í umsögnum með þessari grein, því þarna eru í raun að koma í ljós alveg stórmerkilegir hlutir sem hafa verið þaggaðir niður með valdi af fjölmiðlum sem höfðu engan áhuga á því að sannleikurinn kæmi í ljós.

Á þessum tíma var Eimskip mjög hátt skrifað hjá þjóðinni, einskona óskabarn sem fólk leit upp til í lotningu og stjórnendur þess nánast í guða tölu hjá almenningi vegna skrifa fjölmiðla um fyrirtækið.

Á þessum tíma voru fjölmiðlar í landinu sem kölluðu sig óháða og frjálsa, en frelsið og hvað þeir voru nú þrátt fyrir allt, „óháðir“ náði ekki lengra en það, að þar var bæði ritskoðun og þöggun í hávegum höfð.

Minni svo gott fólk á að ganga til liðs við Sóknarhópinn á Facebook því eignarhaldið og umráðaréttur yfir fiskimiðum okkar íslendinga má aldrei setja í hendurnar á þeim óskapnaði sem LÍÚ / SFS er orðið í dag.

Dreifið, deilið og ræðið.

 

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!